Innlent

Frum­varp um bætur í hluta­starfi mun taka breytingum

Heimir Már Pétursson og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Fundir Alþingis hófust á ný í dag eftir jólahlé.
Fundir Alþingis hófust á ný í dag eftir jólahlé. vísir/vilhelm

Þingfundi sem átti að vera á morgun hefur verið frestað til föstudags til að meiri tími gefist til að fara yfir kostnað við breytingar á frumvarpi um atvinnuleysisbætur til þeirra sem fara í hlutastarf vegna áhrifa kórónuveirunnar á stöðu fyrirtækja og heimila.

Samkvæmt frumvarpi sem félagsmálaráðherra mælti fyrir um á Alþingi í gær um breytingar á lögum um Ábyrgðarsjóð launa til að tryggja greiðslu atvinnuleysisbóta á móti lækkuðu starfshlutfalli fólks, verða bætur greiddar ef starfshlutfallið hefur að minnsta kosti lækkað um 20 prósent og starfsmaður heldur hið minnsta 50 prósenta starfshlutfalli.

Laun frá vinnuveitanda og greiðslur atvinnuleysisbóta samanlagt geta þó aldrei numið hærri fjárhæð en 80% af meðaltali heildarlauna launamanns síðustu þrjá mánuðina á undan.

Skulu laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur samkvæmt þessu ákvæði samanlagt aldrei nema hærri fjárhæð en 650.000 kr. á mánuði.

kórónuvírusFoto: HÞ

Skoðum dæmi um hvernig þetta kæmi út miðað við einstök laun. Einstaklingur sem nú er með 350 þúsund krónur á mánuði í fullu starfi og færi í 50 prósent starfshlutfall, fengi 280 þúsund krónur samanlagt í laun og bætur og lækkuðu laun hans um 70 þúsund krónur.

kórónuvírusFoto: HÞ

Miðað við sömu forsendur myndi manneskja með 500 þúsund krónur í mánaðarlaun fara í 400 þúsund, lækka um hundrað þúsund og manneskja með 700 þúsund færi í 560 þúsund, lækkaði um 140 þúsund.

kórónuvírusFoto: HÞ

Manneskja með 900 þúsund króna mánaðarlaun ætti miðað við 80 prósenta regluna að fá 720 þúsund krónur samanlagt í laun og bætur, en getur ekki fengið meira en 650 þúsund krónur og því myndu laun hennar lækka í þá upphæð eða um 250 þúsund krónur á mánuði.

kórónuvírusFoto: HÞ

Velferðarnefnd Alþingis hefur haft málið til skoðunar allt frá því frumvarpið var lagt fram á föstudag í síðustu viku. Nefndin kom saman til fundar klukkan þrjú í dag og stefndi að því að ljúka málinu til annarrar umræðu fyrir þingfund á morgun. Honum hefur hins vegar ferið frestað til föstudags vegna þess að embættismenn eru að reikna út hvað breytingar á frumvarpinu muni kosta.

Meðal annars er verið að skoða að lækka það starfshlutfall sem fólk getur farið í og fengið samhliða atvinnuleysisbætur allt niður í 20 prósent.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×