Viðskipti innlent

Seðlabankinn boðar tíðindi í fyrramálið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri mun fara yfir málin á fundinum í fyrramálið klukkan tíu.
Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri mun fara yfir málin á fundinum í fyrramálið klukkan tíu. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Seðlabanki Íslands boðar niðurstöður nýlegra funda peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar í fyrramálið klukkan átta. Fulltrúum fjölmiðla og fjármálafyrirtækja er boðið á kynningarfund um niðurstöðurnar klukkan tíu.

Sex dagar eru liðnir síðan Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um hálft prósentustig en þeir eru í dag 2,25% og hafa aldrei verið lægri. Um leið lækkaði bankinn meðaltalsbindiskyldu innlánsstofnana úr 1% niður í 0%.

Næsti reglubundni fundur nefndanna átti að vera í maí. Telja má líklegt að frekari aðgerðir verði kynntar á fundinum í ljósi stöðunnar sem upp er komin vegna kórónuveirunnar.

Það verða Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri sviðs hagfræði og peningastefnu og Haukur Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs sem kynna niðurstöðurnar og svara fyrirspurnum.

Vefútsending verður frá kynningunni klukkan 10:00. Seðlabankinn ábyrgist ekki að útsendingin verði hnökralaus, að því er segir í tilkynningu.

Frétt um niðurstöður peningastefnunefndar og fjármálastöðugleikanefndar verður birt á vef Seðlabankans eftir klukkan 8:00 í fyrramálið.

Að neðan má sjá viðtal við Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóra frá tilkynningu um vaxtalækkun í síðustu viku.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×