Innlent

„Það er ein­hver stór­kost­legur mis­skilningur hjá stjórnar­and­stöðunni“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra. Vísir/Egill

Samgönguráðherra sakar stjórnarandstöðuna um fjarstæðukenndar yfirlýsingar og stórkostlegan misskilning vegna máls sem átti að vera á dagskrá þingfundar í vikunni er varðar samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum. Þótt frumvarpið sé ekki lagt fram sem sérstakt viðbragð við kórónuveirufaraldrinum lítur ráðherra á það sem hluta af viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf.

Á dagskrá þingfundar á miðvikudaginn voru sjö mál frá ríkisstjórninni sem ekki tengjast beinlínis viðbrögðum stjórnvalda við kórónuveirufaraldrinum. Stjórnarandstaðan lýsti verulegri óánægju með þetta sem endaði með því að forseti Alþingis tók öll mál af dagskrá, líka óundirbúinn fyrirspurnatíma og umræðu um störf þingsins, og sleit þingfundi.

Sjá einnig:  „Hann vissi nákvæmlega í hvað stefndi“

Eitt þeirra stjórnarmála sem var á dagskrá er frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnaráðherra, sem varðar samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir. Með því er gert ráð fyrir að Vegagerðinni verði heimilt að semja við einkaaðila um sex tiltekin verkefni í vegagerð og kveðið er á um heimild til að heimta veggjöld. Það var einkum þetta frumvarp sem stjórnarandstaðan var óhress með að sett væri á dagskrá enda sé málið umdeilt í öllum flokkum. Sigurður Ingi segist hissa á framgöngu stjórnarandstöðunnar.

„Það er einhver stórkostlegur misskilningur hjá stjórnarandstöðunni. Þetta mál er framhald af Hvalfjarðagangamódelinu. Margir hafa litið á það, og þar á meðal ríkisstjórnin, að þetta er hluti af viðspyrnunni eftir Covid og þess vegna alveg fjarstæðukenndar yfirlýsingar sem að stjórnarandstaðan var með í kringum þetta mál,“ segir Sigurður Ingi.

Þess ber þó að geta að óánægja stjórnarandstöðunnar snýr ekki aðeins að þessu máli sem slíku heldur einnig því hvernig forseti Alþingis hefur haldið á málum við skipulag dagskrár þingfunda. Með því að setja önnur mál á dagskrá en sérstök Covid-19 mál hafi hann svikið samkomulag um að aðeins slík mál ættu að vera í forgangi. 

Það hafi bætt gráu ofan á svart að eitt þeirra mála hafi verið veggjaldafrumvarp samgönguráðherra.

„Ég eiginlega botna ekkert í hugsunarhætti þeirra gagnvart því. Þarna er verið að fara í viðspyrnu til þess að fara í frekari verkefni. Ávinningurinn af því er augljós, ekki sýst fyrir þann sem notar framkvæmdina alveg eins og Hvalfjarðarmódelið var,“ segir Sigurður Ingi.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×