Erlent

Evrópusambandið skellir landamærunum í lás

Kjartan Kjartansson skrifar
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, ræddi við fréttamenn eftir að fjarfundi leiðtoga aðildarríkjanna lauk síðdegis.
Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnarinnar, ræddi við fréttamenn eftir að fjarfundi leiðtoga aðildarríkjanna lauk síðdegis. Vísir/EPA

Ríkisborgarar ríkja utan Evrópusambandsins fá ekki að ferðast til Evrópusambandsríkja næstu þrjátíu dagana. Leiðtogar ríkjanna samþykktu þetta á fjarfundi í dag. Ferðabannið nær til 26 ríkja Evrópusambandsins auk þess sem búist er við að það gildi fyrir Ísland, Liechtenstein, Noreg og Sviss.

Aðeins fólk með sem hefur búið til lengri tíma innan Evrópusambandsins, fólk sem á nána ættingja þar, opinberir erindrekar, heilbrigðisstarfsmenn og fólk sem sinnir vöruflutningum er undanskilið banninu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Búist er við því að Evrópusambandsríki sem taka ekki þátt í Schengen-samstarfinu framfylgi banninu sömuleiðis, fyrir utan Írland. Bretlandi verður boðið að taka þátt.

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sagði það í höndum hvers og eins ríkis að framfylgja banninu á landamærum þeirra.

„Óvinurinn er veiran og nú þurfum við að gera það ítrasta til þess að verja fólkið okkar og hagkerfi. Við erum tilbúin að gera allt sem þörf krefur. Við hikum ekki við að grípa til frekari aðgerða eftir því sem ástandið þróast,“ sagði hún á fréttamannafundi nú í kvöld.

Aðgerðin er sögð tilraun sambandsins til þess að samræma aðgerðir í Evrópu gegn kórónuveirufaraldrinum eftir að fjöldi ríkja ákvað einhliða að loka landamærum sínum undanfarna, þar á meðal Danmörk og Noregur.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sagði í samtali við fréttastofu að enn hafi ekkert komið til íslenskra yfirvalda frá Evrópusambandinu um málið. Enn er því óljóst hvernig ferðabannið mun hafa áhrif á Ísland og önnur Schengen-ríki. Þá sagði Guðlaugur að ekki sé víst að línurnar skýrist í kvöld.

Hér fyrir neðan má sjá fréttamannafund von der Leyen þar sem hún tilkynnti um ferðabannið.

Árétting: Breska ríkisútvarpið BBC segir að „búist sé við því“ að ferðabannið nái til Íslands. Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var fullyrt að bannið næði til Íslands.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×