Enski boltinn

Rausnarleg gjöf frá Sadio Mane

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane var hugsað til landa sinna þegar hann frétti af útbreiðslu kórónuveirunnar þar.
Sadio Mane var hugsað til landa sinna þegar hann frétti af útbreiðslu kórónuveirunnar þar. Getty/Jean Catuffe

Stórstjarna Liverpool liðsins hefur heldur betur látið sitt af mörkum í heimalandi sínu í baráttunni við útbreiðslu kórónuveirunnar.

Sadio Mane lét af hendi 30 milljónir senegalskra franka til stjórnvalda í Senegal en það eru um sjö milljónir íslenskra króna.

Umboðsmaður Sadio Mane staðfesti fréttirnar og sagði að leikmaðurinn hafi tekið það upp hjá sér sjálfur að leggja pening í baráttuna þegar hann gerði sér grein fyrir því hvernig málin eru að þróast í Senegal.

Sadio Mane setti líka inn myndband á samfélagsmiðla sína þar sem hann skoraði á alla að taka kórónuveiruna alvarlega og virða fyrirmæli stjórnvalda.

Sadio Mane var kosinn Knattspyrnumaður Afríku í fyrra og er stærsta íþróttastjarnan Senegal.

Allar æfingar Liverpool liðsins á Melwood æfingasvæðinu hafa verið stöðvaðar en öllum leikjum liðsins til 4. apríl var frestað á föstudaginn.

Mane og aðrir leikmenn hafa æft sjálfir í einrúmi eftir að hafa fengið fyrirmæli frá knattspyrnustjóranum Jürgen Klopp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×