Fótbolti

EM verður haldið á næsta ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
EM 2020 verður að EM 2021.
EM 2020 verður að EM 2021. vísir/getty

Knattspyrnusamband Evrópu hefur ákveðið að færa Evrópumót karla, sem átti að fara fram í tólf borgum víðs vegar um Evrópu í sumar, yfir á næsta ár vegna kórónuveirufaraldursins.

EM fer því fram dagana 11. júní til 11. júlí 2021. Frá þessu er greint á Twitter-síðu norska knattspyrnusambandsins.

Evrópumót karla og kvenna verða því bæði sumarið 2021. EM kvenna í Englandi á að hefjast 7. júlí og ljúka 1. ágúst. Úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar og EM U-21 árs landsliða karla áttu einnig að fara fram sumarið 2021.

Ekki liggur enn fyrir hvenær leikirnir í umspili um sæti á EM fara fram. Ísland átti að mæta Rúmeníu á Laugardalsvelli 26. mars.

Með því að færa EM fram á næsta ár gefst möguleiki til að klára deildakeppnirnar í Evrópu og Meistara- og Evrópudeildina í sumar.

Þetta verður í fyrsta sinn sem EM eða HM karla verður haldið á oddatöluári. Þetta er einnig í fyrsta sinn frá seinni heimsstyrjöldinni sem stórmóti er aflýst.

Uppfært 14:20

UEFA hefur staðfest að Evrópumót karla fari fram sumarið 2021 og umspilsleikirnir sem áttu að fara fram í mars verði í júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×