Innlent

„Þetta eru mikil og stór tíðindi sem koma mjög brátt að“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Michael Mann, sendiherra ESB á Íslandi, mæta til fundar sem hófst klukkan 18:30 í utanríkisráðuneytinu vegna tillögu ESB um 30 daga ferðabann.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra og Michael Mann, sendiherra ESB á Íslandi, mæta til fundar sem hófst klukkan 18:30 í utanríkisráðuneytinu vegna tillögu ESB um 30 daga ferðabann. Vísir/Egill

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir ekki liggja fyrir hvað íslensk stjórnvöld hafi langan tíma til að bregðast við beiðni Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um að Ísland taki þátt í fyrirhuguðu ferðabanni til Evrópusambandsins og annarra Schengen-ríkja, sem ætlað er að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar COVID-19.

„Þetta eru mikil og stór tíðindi sem koma mjög brátt að“, við þurfum auðvitað að ræða þetta og taka upplýsta ákvörðun,“ segir Áslaug Arna, en hún var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2 nú rétt í þessu.

Sjá einnig: Vill að Ísland banni komur ferðamanna frá löndum utan Schengen

Hún segir að málið verði tekið fyrir á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun.

„Við munum ræða þetta í ríkisstjórn á morgun, átta okkur á því til hvers er ætlast af okkur og hvort að við höfum eitthvað um þetta að segja.“

Hún segir að skoða þurfi hvað ferðabann sem þetta myndi þýða í framkvæmd fyrir Ísland.

„Það hefur verið okkar lína, miðað við þær upplýsingar sem við höfum í dag að þetta myndi ekki skila tilætluðum árangri,“ segir Áslaug.

Aðspurð sagði hún að ekki lægi fyrir að svo stöddu hversu langan tíma íslensk stjórnvöld hefðu til þess að taka afstöðu til beiðninnar.

Bannið, sem lagt var til af von der Leyen í dag, verður tekið fyrir á fjarfundi leiðtoga Evrópusambandsríkjanna á morgun. Verði af banninu myndi það standa yfir í 30 daga, og taka til allra þeirra sem ekki eru ríkisborgarar Evrópusambandsins og eftir atvikum, hinna Schengen-ríkjanna.

Undanþágur á banninu yrðu þá veittar þeim sem væru á leið til sinna heima eða fjölskyldna, sem og heilbrigðisstarfsmönnum og öðrum sem vinna sérstaklega að því að berjast gegn útbreiðslu kórónuveirunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×