Enski boltinn

Engir á­horf­endur leyfðir í Liver­pool-borg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Engir áhorfendur verða leyfðir á Anfield næst er Liverpool spilar þar.
Engir áhorfendur verða leyfðir á Anfield næst er Liverpool spilar þar. Andrew Powell/Getty Images

Ensku úrvalsdeildarfélögin Liverpool og Everton munu ekki geta fengið áhorfendur á leiki sína á næstunni eftir að Liverpool-borg var færð niður í „Tier 3.“ Það þýðir að engir áhorfendur eru leyfðir á íþróttaviðburði.

Fyrir skömmu síðan var ákveðið að leyfa liðum á ákveðnum svæðum Englands að hleypa áhorfendum aftur inn á leiki liða sem gátu sinnt sóttvörnum almennilega. Mest máttu þó koma tvö þúsund áhorfendur saman á einum og sama leiknum.

Það var lúxus sem Liverpool og Everton gátu nýtt sér en ekki lengur. Liverpool-borg hefur verið færð úr „Tier 2“ niður í „Tier 3.“ Var öllu Englandi skipt upp í ákveðin sóttvarnarstig eftir alvarleika kórónufaraldursins á hverju svæði fyrir sig. Lið á sóttvarnarstigi 2 máttu fá stuðningsmenn á leiki en ekki lið á stigunum þar fyrir ofan.

Með þessari breytingu á sóttvarnarstigi Liverpool-borgar er ljóst að öll lið deildarinnar leika nú fyrir luktum dyrum. Kórónufaraldurinn virðist ekki vera á undanhaldi í landinu og hefur þurft að fresta tveimur leikjum í ensku úrvalsdeildinni vegna smita hjá félögum sem og fjölda leikja í neðri deildum.

Þá greindist metfjöldi smita hjá úrvalsdeildarfélögunum nýverið eða alls 18 talsins. Um er að ræða leikmenn og starfsmenn félaganna.

Umræða hefur myndast um að stöðva deildina í tvær vikur en það eru skiptar skoðanir á hverju það skilar. Gary Neville, sparkspekingur á Sky Sports, hefur talað gegn því og Jack Grealish, fyrirliði Aston Villa, tók undir ummæli Neville.


Tengdar fréttir

Metfjöldi smita í ensku úrvalsdeildinni

Í nýjustu skimun ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu kom í ljós að alls eru átján aðilar, leikmenn eða starfsmenn félaganna, smitaðir af kórónuveirunni. Aldrei hafa fleiri greinst smitaðir í einni og sömu skimuninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×