Erlent

Ný­kjörinn þing­maður látinn af völdum Co­vid-19

Atli Ísleifsson skrifar
Luke Letlow átti að sverja þingmannseið næstkomandi sunnudag.
Luke Letlow átti að sverja þingmannseið næstkomandi sunnudag. Skjáskot

Repúblikaninn Luke Letlow, sem kjörinn var á fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Louisiana í kosningunum í nóvember, er látinn af völdum Covid-19. Hinn 41 árs gamli Letlow er fyrsti bandaríski þingmaðurinn til að láta lífið af völdum sjúkdómsins.

BBC segir frá því að Letlow hafi greint frá því þann 18. desember að hann hafi greinst með Covid-19 og var hann fluttur á sjúkrahús skömmu síðar. Ástand hans versnaði svo og var hann færður á gjörgæslu á sjúkrahúsi í bænum Shreveport þann 23. desember. Hann lést í gær.

Til stóð að Letlow myndi sverja þingmannseið næstkomandi sunnudag. Hann hafði áður starfað fyrir Ralph Abraham, þingmann Louisiana í fulltrúadeildinni, og hafði verið kjörinn til að taka sæti Abraham sem sóttist ekki eftir endurkjöri í kosningunum í nóvember.

John Bel Edwards, ríkisstjóri Louisiana, hefur fyrirskipað að flaggað verði í hálfa stöng í ríkinu þann dag sem Letlow verður borinn til grafar.

Letlow lætur eftir sig eiginkonu, Juliu Barnhill Letlow, og tvö ung börn. Hann er einn af sjö þúsund sem hafa látið lífið af völdum í Louisiana-ríki frá upphafi heimsfaraldursins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×