Erlent

Bólusetningar farnar af stað víðs vegar um heim

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Emilie Repikova, hermaður úr seinni heimstyrjiöld, fær einn af fyrstu skömmtum í Tékklandi. 
Emilie Repikova, hermaður úr seinni heimstyrjiöld, fær einn af fyrstu skömmtum í Tékklandi.  EPA/MARTIN DIVISEK

Bólusetningar við kórónuveirunni eru nú farnar af stað víðs vegar um heiminn. Hjálparsamtök lýsa áhyggjum af skorti á bóluefni í fátækari löndum.

Eins og stendur eru bólusetningar farnar af stað í rúmlega þrjátíu löndum. Víðast hvar er stuðst við bóluefnin frá Pfizer og Moderna. Rússar nota sitt eigið bóluefni og Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa gefið græna ljósið á efni kínverska fyrirtækisins Sinopharm. 

Enrico di Rosa, læknirinn sem annaðist fyrstu ítölsku Covid-sjúklingana, fékk sprautu í Róm í dag og sagðist afar ánægður í viðtali við AP. „Mér þykir þetta mikill heiður og ég er mjög heppinn,“ sagði di Rosa.

Áhyggjur af hamstri

Það eru þó langt frá því öll ríki í þeirri stöðu að geta hafið bólusetningar nú. Hjálparsamtök á borð við Oxfam og Amnesty International lýstu þungum áhyggjum af því í sameiginlegri skýrslu fyrr í mánuðinum að 67 fátækari ríki gætu lent í afar erfiðri stöðu vegna hamsturs auðugari landa. Afganistan, Gana, Jemen, Úkraína og Sýrland voru á meðal ríkja á listanum. 

Önnur bylgja faraldursins ríður nú yfir Afríku og smituðum fjölgar ört. Leiðtogar ríkja í Afríku og Asíu hafa svo lýst áhyggjum af því að ómögulegt gæti reynst að nota bóluefnin frá Pfizer og Moderna þar sem þau þarf að geyma við mikinn kulda. Strjálbýl svæði og skortur á kæliaðstöðu valda því töluverðum vandræðum.

Ekki þarf að geyma bóluefnin frá breska AstraZeneca og kínverska Sinopharm við jafnmikið frost og gætu þau efni reynst góður kostur. Marokkó, Egyptaland og fleiri ríki hafa þegar tryggt sér skammta frá kínverska fyrirtækinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.