Innlent

Samfylkingin vill að Alþingi verði kallað saman fyrir áramót

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Oddný Harðardóttir.
Oddný Harðardóttir. Vísir/Vilhelm

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar hefur óskað eftir að Alþingi komi saman þann 29. desember þar sem fram fari sérstök umræða við forsætisráðherra um „þá hættu sem skapast getur vegna hópamyndana um áramótin,“ að því er segir í tilkynningu frá Samfylkingunni.

Þá vill flokkurinn einnig ræða áhrif „háttsemi fjármála- og efnahagsráðherra og skeytingarleysis hans um sóttvarnarreglur,“ líkt og það er orðað í yfirlýsingu flokksins.

Samfylkingin líti svo á að ástæða sé til að ætla að hegðun fjármála- og efnahagsráðherra gagnvart sóttvarnarreglum muni draga dilk á eftir sér „og hafa þær afleiðingar að fleiri kjósi að virða sóttvarnarreglur að vettugi.“

„Síðasti spölurinn er eftir í þessari þrautseigu baráttu okkar við heimsfaraldur. Bóluefnið er ekki komið og það þarf enn lítið til að hættuástand myndist. Traust á sóttvarnaraðgerðum, samheldni og gott fordæmi stjórnvalda verður að vera í algjörum forgangi,“ er ennfremur haft eftir Oddnýju Harðardóttur, þingflokksformanni Samfylkingarinnar í tilkynningunni.

Uppfært kl. 16:09

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segist í samtali við Vísi ekki vera búinn að kynna sér beiðni Samfylkingarinnar. Hún verði skoðuð og henni svarað. Hann bendir á að hafa þurfi það í huga að búið sé að fresta þingfundum til næsta árs með þyngsályktun, staðan sé ekki svo einföld að forseti Alþingis geti boðað þingfund með skömmum fyrirvara þegar staðan sé þessi. Ekki sé útilokað að fundað verði með formönnum þingflokka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×