Erlent

Dæmdur fyrir á­rásina á bæna­hús gyðinga í Halle

Atli Ísleifsson skrifar
Hægriöfgamaðurinn Stephan Balliet í dómsal.
Hægriöfgamaðurinn Stephan Balliet í dómsal. Getty

Dómstóll í Þýskalandi hefur dæmt karlmann í lífstíðarfangelsi fyrir árás sína á bænahús gyðinga í borginni Halle í október á síðasta ári.

Hinn 28 ára Stephan Balliet skaut konu fyrir utan bænahúsið og mann á kebabveitingastað til bana eftir að honum hafði mistekist að brjóta sér leið inn í bænahúsið þann 9. október 2019.

Alls höfðu 52 gyðingar safnast saman inni í bænahúsinu til að biðja og fagna Yom Kippur og hugðist Balliet drepa sem flesta. Honum mistókst þó að komast inn í harðlæsta bygginguna og ákvað þá að skjóta aðra í nágrenninu.

Balliet sýndi enga iðrun í réttarhöldunum sem stóðu í um fimm mánuði. Hann afneitaði jafnframt helför gyðinga í vitnastúku, en slíkt varðar við lög í Þýskalandi.

Hann sagði það ekki hafa verið mistök að ráðast á bænahúsið þar sem „þeir eru óvinir mínir“.

Balliet klæddist hermannafötum á meðan á árásinni stóð og sýndi frá henni beint á netinu. Stóð árásin yfir í um 35 mínútur áður en hann var tekinn höndum af lögreglu.


Tengdar fréttir

Tveir látnir eftir skotárás í Halle

Lögregla í Þýskalandi segir að tveir séu látnir hið minnsta og margir hafi særst í eftir skotárás í bænum Halle fyrr í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×