Enski boltinn

Van Gaal segir Solskjær lifa á fornri frægð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Van Gaal er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum. Hann varð enskur bikarmeistari með Man. United.
Van Gaal er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum. Hann varð enskur bikarmeistari með Man. United. VI Images/Getty

Fyrrum stjóri Manchester United, Louis van Gaal, segir að Ole Gunnar Solskjær, núverandi stjóri United, lifi á fornri frægð hjá félaginu.

Hollendingurinn sem þjálfaði United á árunum 2014 til 2016, sem var jafn framt hans síðasta þjálfarastarf, segir að Solskjær lifi á tíma sínum sem leikmaður hjá félaginu.

Solskjær hefur verið undir nokkurri pressu hjá United, sér í lagi eftir að United komst ekki upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar, en United vann 6-2 stórsigur á Leeds í gær sem lækkaði aðeins í efasemdarmönnum Norðmannsins.

„Solskjær er fyrrum leikmaður svo þeir munu ekki reka hann eins fljótt og einhvern annan,“ sagði sá hollenski í samtali við The Mirror.

„United mun ekki reka stjóra á miðri leiktíð, sér í lagi ekki Solskjær. Ég hef lesið allar sögurnar um Solskjær og hans framtíð í fjölmiðlum.“

„Þeir biðu með að reka mig þangað til í lok tímabilsins og þeir gætu gert það sama við hann,“ sagði Van Gaal.

Hann hreifst ekki af frammistöðu United í grannaslagnum gegn Manchester City á dögunum en leiknum lauk með markalausu jafntefli.

„Eina sem United gerði var að verjast á tíu mönnum. Allir vita hvernig samband mitt og Pep Guardiola er. Hann er pirraður því ég skoraði á hann í síðustu bók minni en ég naut meira að horfa á City en United.

Hreinskilnislega, United varðist bara og vonaðist eftir skyndisókn. Þeir voru með leikmenn frammi sem hlaupa hundrað metrana á níu sekúndum. Er það met?“ sagði kaldhæðinn Van Gaal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×