Fótbolti

„Selt leik­menn fyrir 30 milljónir evra og Ísak Berg­mann er ekki einu sinni inni í þeirri tölu“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ísak Bergmann hefur spilað frábærlega í sænsku úrvalsdeildinni.
Ísak Bergmann hefur spilað frábærlega í sænsku úrvalsdeildinni. mynd/norrköping ifk twitter

Fyrrum sænski landsliðsmaðurinn, Erik Hedman, hrósar Jens Gustafsson, fyrrum þjálfara Ísaks Bergsmanns Jóhannessonar hjá Norrköping, á Twitter. Hann segir að Jens hafi gert frábæra hluti hjá Íslendingaliðinu.

Tilkynnt var á laugardagskvöldið að Jens myndi ekki halda áfram með sænska liðið. Liðið endaði í sjötta sæti sænsku deildarinnar sem þóttu vonbrigði. Því ákvað Jens að hætta með liðið og mun því Ísak Bergmann fá nýjan þjálfara á næstu leiktíð, verði hann áfram hjá félaginu.

Erik Edman er fyrrum sænskur landsliðsmaður og hann á einnig flottan atvinnumannaferil að baki. Hann lék meðal annars með Heerenveen frá 2001 til 2004 og Tottenham árin 2004 til 2005. Hann hefur einnig leikið með Wigan, Rennes og Karlsruher.

Erik hrósaði sænska þjálfaranum fyrir sína frammistöðu en hann hefur ekki bara náð í úrslit með Norrköping heldur hefur hann einnig selt leikmenn fyrir mörg hundruð milljónir íslenskra króna. Þar með talin skipti Arnórs Sigurðssonar til CSKA Moskvu.

„2020 var misheppnað en í fjögur og hálft ár hefur Jens fest Norrköping sem eitt af toppliðunum í Allsvenskan og á sama tíma selt leikmenn fyrir yfir þrjátíu milljónir evra og Ísak Bergmann er ekki einu sinni inni í þeirri tölu. Ótrúlega heillandi.“

Næsta söluvara Norrköping er væntanlega Ísak, eins og Erik bendir á, en enska blaðið Daily Mirror, og Daily Mail tekur undir það, að Norrköping vilji í heildina fá yfir 10 milljónir punda fyrir Ísak, jafnvirði 1,8 milljarða króna. Helmingur upphæðarinnar sé þó háður því að ákveðin skilyrði verði uppfyllt.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.