Erlent

Fimm konur og á­tján börn flutt úr ISIS-búðum til Finn­lands og Þýska­lands

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Konurnar sneru aftur til Þýskalands og Finnlands ásamt átján börnum núna um helgina.
Konurnar sneru aftur til Þýskalands og Finnlands ásamt átján börnum núna um helgina. Getty/Nacho Calonge

Fimm konur og átján börn sneru aftur til Þýskalands og Finnlands úr búðum sem hafa verið heimili fjölskyldna vígamanna hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki (ISIS) í Sýrlandi. 

Yfirvöld beggja ríkja greindu frá því að konurnar og börnin hafi verið sótt nú um helgina vegna mannúðarástæðna. Konurnar eru allar þýskir eða finnskir ríkisborgarar. Þrjár kvennanna voru til rannsóknar vegna gruns um að þær væru hluti af hryðjuverkasamtökunum, að sögn þýskra fréttamiðla.

Hundruð Evrópumanna sem hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin búa í búðum samtakanna í norðurhluta Sýrlands. Margir þeirra eru taldir vera eiginkonur og börn vígamanna ISIS eða stuðningsmenn samtakanna.

Evrópsk ríki hafa verið löt við það að sækja ríkisborgara sína sem hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin vegna öryggishættu sem þau telja steðja að vegna fólksins. Til dæmis má nefna bresku stúlkuna Shamima Begum sem gekk til liðs við samtökin árið 2015 og missti hún í kjölfarið ríkisborgararétt sinn í Bretlandi vegna öryggisráðstafana.

Mannréttindasamtök hafa hins vegar hvatt ríki til að sækja ríkisborgara sína og hafa fært þau rök að konur og börn sem búa í búðum samtakanna séu í sérstakri hættu á að verða alvarlega veik eða að snúast til öfgatrúar.

Voru allar heilsuveilar

Tólf barnanna voru flutt til Þýskalands og konurnar þrjár sem voru til rannsóknar. Utanríkisráðherra Þýskalands, Heiko Maas, sagði í dag að flest barnanna hafi verið munaðarlaus og einhver þeirra hafi verið veik. Þess vegna hafi mikið legið við að flytja þau aftur til Þýskalands.

Ein kvennanna var handtekin við komuna á flugvellinum í Frankfurt vegna gruns um að hún væri meðlimur hryðjuverkasamtakanna. Saksóknarar telja að hún hafi gengið til liðs við samtökin í Sýrlandi þegar hún var fimmtán ára gömul.

Konurnar voru allar til rannsóknar vegna gruns um að þær hafi gengið til liðs við samtökin en þær voru allar eiginkonur ISIS-liða og voru allar heilsuveilar.

Sex börn og tvær konur sneru aftur til Finnlands. Finnsk yfirvöld telja að meira en 600 evrópsk börn og 300 konur, sem eru fjölskyldur ISIS-liða, séu í búðum, sem reknar eru af Kúrdum í norðaustur Sýrlandi.

Fréttin hefur verið leiðrétt. Áður sagði að búðirnar væru reknar af hryðjuverkasamtökunum en það er ekki rétt. Í þeim búa hins vegar fjölskyldur og einhverjir vígamenn ISIS. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.