Fótbolti

Finnst skrítið að hún hafi verið valin í lið ársins

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þrátt fyrir að hafa nánast ekkert spilað á árinu var Megan Rapinoe valin í lið ársins 2020 hjá FIFA.
Þrátt fyrir að hafa nánast ekkert spilað á árinu var Megan Rapinoe valin í lið ársins 2020 hjá FIFA. getty/Brad Smith

Margir furðuðu sig á því að Megan Rapinoe hafi verið valin í lið ársins á verðlaunahátíð FIFA, meðal annars hún sjálf.

Rapinoe hefur ekki spilað leik síðan í mars og í færslu á Twitter fannst henni skrítið að hún hafi komist í lið ársins.

„Þetta er augljóslega mikill heiður fyrir mig, að vera valin af kollegum mínum í lið ársins. Á sama tíma kom það mér á óvart að ég hafi komið til greina þar sem ég hef ekki spilað síðan í mars,“ sagði Rapinoe. 

Hún bætti við að valið á sér í lið ársins sýndi að gera þyrfti meira fyrir kvennafótboltann í heiminum. 

„Við erum með svo margar frábæra fótboltakonur í heiminum og við þurfum öll að gera það sem getum til að veita þeim athygli. Það að ég hafi verið valin sýnir enn og aftur að til að taka skref fram á við þurfum við að fjárfesta meira í kvennaboltanum til að gefa fleiri leikmönnum tækifæri til að sjást í sjónvarpi í sínum heimalöndum og á heimsvísu meðan þær spila,“ sagði Rapinoe.

Hún var valin besti leikmaður heims á verðlaunahátíð FIFA í fyrra. Rapinoe varð þá heimsmeistari með bandaríska landsliðinu og vakti auk þess mikla athygli fyrir baráttu sína utan vallar fyrir auknu jafnrétti og réttlæti. Henni tókst meðal annars að fara í taugarnar á Donald Trump Bandaríkjaforseta.

Enska landsliðskonan Lucy Bronze var valin besti leikmaður heims 2020 af FIFA. Pernille Harder og Wendie Renard voru einnig tilnefndar.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.