Fótbolti

Arftaki Lars veit hver stakk hann í bakið hjá Ragnari og félögum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ståle lifir sig inn í leikinn gegn Manchester United í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar.
Ståle lifir sig inn í leikinn gegn Manchester United í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar. EPA-EFE/Sascha Steinbach

Ståle Solbakken, núverandi landsliðsþjálfari Noregs og fyrrum stjóri FCK, segir að hann viti vel hver stakk hann í bakið hjá danska stórliðinu. Þetta segir hann í samtali við hlaðvarpið TV2 B-laget.

Norðmaðurinn hefur verið duglegur að tjá sig um brottreksturinn eftir að hann fyrst tjáði sig en hann tjáði sig fyrst í samtali við TV3 Sport í síðasta mánuði.

Ståle fékk sparkið í október og sló það marga en Ragnar Sigurðsson og samherjar í FCK höfðu ekki byrjað tímabilið vel í Danmörku. Aðspurður hver hafði stungið hann í bakið svaraði Ståle:

„Ég veit hver gerði það. Ég er með góða mynd af því - hver svo sem hefur tekið loka ákvörðunina. Þetta truflar mig ekki og er ekki vandamál fyrir mig,“ sagði Ståle.

„Vandamálið er að við höfðum unnið daga og nætur með eitt verkefni í svona langan tíma og það var ekki tími fyrir hálft ár í viðbót. Þetta endaði þó með silfri og átta liða úrslitum í Evrópudeildinni með liði frá Skandinavíu.“

„Við höfðum byrjað tímabilið illa en það eru góðar skýringar þar á. Kórónuveirufaraldurinn, við höfðum ekkert undirbúningstímabil því við spiluðum í Köln og byrjuðum svo strax annað tímabil,“ sagði Norðmaðurinn.

Hann bætti því svo við að hann muni sakna þess að þjálfa í Parken á sunnudögum sem og búa til „Evrópu minningar“ með FCK. Hann sé þó nú einbeittur á verkefnið með Noregi þar sem hann er arftaki Lars Lagerback.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×