Fótbolti

Telja Lewandowski aug­ljóst val sem leik­mann ársins hjá FIFA

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lewandowski hefur verið nær óstöðvandi undanfarna fimmtán mánuði eða svo.
Lewandowski hefur verið nær óstöðvandi undanfarna fimmtán mánuði eða svo. Pool/Getty Images

Í kvöld mun Alþjóða knattspyrnusambandið velja besta leikmann ársins í karla- og kvennaflokki. Tölfræðisíðan Opta fór ítarlega ofan í saumana á því af hverju Robert Lewandowski á verðlaunin skilið karla megin.

Verðlaunin eru veitt fyrir frammistöðu á milli 20. júlí 2019 og 7. október 2020. Á þeim tíma hefur hinn pólski Robert Lewandowski verið nær óstöðvandi.

Hefur hann leikið 52 leiki fyrir Þýskalands- og Evrópumeistara Bayern München á þessum tíma og skorað í þeim 60 mörk. Í gær var hann enn á ný á skotskónum og gerði sitt 250. mark í þýsku úrvalsdeildinni, og 251 markið skömmu þar á eftir.

Það er 20 mörkum meira en næstu menn á þeim tíma. Cristiano Ronaldo og Ciro Immobile skoruðu báðir 40 mörk. Ef leikjum með landsliði er bætt við þá hefur hinn 32 ára gamli Lewandowski leikið 58 leiki og skorað alls 64 mörk.

Þá er vert að taka fram að hann var markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð sem og Meistaradeildar Evrópu en Bayern vann báðar keppnir. Þó Lewandowski hafi ekki skorað í úrslitaleiknum þá hafði hann skorað í níu leikjum í röð þar á undan.

Verðlaunin verða eins og áður sagði veitt í kvöld og það er erfitt að færa rök fyrir því að Lewandowski eigi þau ekki skilið. Lionel Messi hlaut þau fyrir ári og þá var Megan Rapinoe valin best kvenna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.