Enski boltinn

„Síðustu tveir leikir hafa verið meðal þeirra bestu hjá Gylfa fyrir Everton“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson hefur leikið níutíu mínútur í síðustu tveimur leikjum Everton.
Gylfi Þór Sigurðsson hefur leikið níutíu mínútur í síðustu tveimur leikjum Everton. getty/Tony McArdle

Gylfi Þór Sigurðsson fékk góða umsögn fyrir spilamennsku sína í 0-2 sigri Everton á Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Íslenski landsliðsmaðurinn fékk sjö í einkunn fyrir frammistöðuna í leiknum í gær hjá Liverpool Echo, staðarblaðinu þar í borg. Þar segir að Gylfi hafi fylgt eftir góðum leik gegn Chelsea um helgina.

„Hættulegur í föstum leikatriðum og var alltaf að fara að búa til mark. Síðustu tveir leikir hafa verið meðal hans bestu í bláu treyjunni. Virðist vera mun ákveðnari sem allir vilja sjá,“ segir í umsögn Liverpool Echo.

Abdoulaye Doucouré og Richarlison fengu hæstu einkunn Everton-manna fyrir frammistöðu sína í gær, eða níu. Richarlison skoraði fyrra mark Everton og Doucouré átti virkilega góðan leik á miðjunni.

Gylfi skoraði eina mark leiksins þegar Everton vann Chelsea, 1-0, á laugardaginn. Það var hans fyrsta mark í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Hann hefur verið fyrirliði Everton í síðustu leikjum liðsins.

Everton er í 5. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 23 stig. Næsti leikur liðsins er gegn Arsenal á Goodison Park á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×