Erlent

Skella í lás á Tenerife yfir hátíðarnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Tenerife.
Frá Tenerife. Vísir/getty

Sóttvarnaaðgerðir verða hertar á Tenerife frá og með miðnætti annað kvöld og eyjunni lokað fyrir ferðalögum. Ekki er enn ljóst hvaða áhrif aðgerðirnar muni hafa á ferðamenn sem hyggjast dvelja á eyjunni yfir hátíðarnar.

Gripið er til aðgerðanna eftir að nýsmituðum af kórónuveirunni tók að fjölga á eyjunni. Í frétt El País segir að aðeins verði hægt að ferðast til og frá Tenerife nema með undanþágum; til að mynda tengdum heilbrigðisþjónustu og vinnu. Þá virðast heimamenn mega snúa til síns heima þrátt fyrir takmarkanirnar, sem taka gildi á miðnætti annað kvöld og gilda í tvær vikur.

Enn er óljóst hvaða áhrif aðgerðirnar munu nákvæmlega hafa á ferðamenn sem hyggjast fljúga til Tenerife á næstu dögum. Fram kemur í frétt Independent að erlendir ferðamenn gætu verið undanskildir ferðabanninu en þó er haft eftir Angel Victor Torres, ríkisstjóra Kanaríeyja, að ferðamannaiðnaðinum verði ekki veitt undanþága. Ferðamenn sem staddir eru á Tenerife munu komast heim á gildistíma aðgerðanna.

Ekki liggur því nákvæmlega fyrir hvort Íslendingar sem hyggja á för til Tenerife yfir hátíðarnar þurfi að sitja heima. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fundar utanríkisráðuneytið um málið í dag. Ferðaskrifstofan Vita, sem stendur fyrir flugi til Tenerife í næstu viku, fundar einnig í dag.

Auk ferðabannsins verða aðrar aðgerðir hertar á eyjunni. Frá og með miðnætti annað kvöld mun útgöngubann taka gildi klukkan tíu á kvöldin, klukkutíma fyrr en áður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×