Innlent

Konur tíðari gestir í kjörklefanum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, stingur vegabréfi sínu aftur í vasann á kjörstað þann 27. júní síðastliðinn.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, stingur vegabréfi sínu aftur í vasann á kjörstað þann 27. júní síðastliðinn. Vísir/Vilhelm

Rétt tæplega 67 prósent fólks á kjörskrá greiddi atkvæði í forsetakosningunum hér á landi í sumar. Rúmlega 252 þúsund manns voru á kjörskrá eða 69,2 prósent landsmanna. Af þeim greiddu 168.790 atkvæði eða 66,9 prósent að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Kosningaþátttaka kvenna var 71,5 prósent og töluverð meiri en karla þar sem þátttakan var 62,4 prósent. Hlutfall utankjörfundaratkvæða af greiddum atkvæðum var 31,1 prósent sem var töluvert hærra en í kosningunum árið 2016 þegar 23,1 prósent greiddu atkvæði í aðdraganda kjördags.

Í framboði til forseta voru Guðmundur Franklín Jónsson og Guðni Th. Jóhannesson. Hlaut Guðni Th. Jóhannesson 92,2 prósent gildra atkvæða og var því kjörinn forseti Íslands.

Kostnaður vegna forsetakosninganna í sumar nam tæpum 416 milljónum króna. Það er um 75 milljónum meira en kostnaður vegna síðustu forsetakosninga þar á undan, árið 2016.

Kosningaþátttaka hefur aðeins einu sinni verið slakari hér á landi en nú í sumar. Það var árið 2004 þegar Ólafur Ragnar Grímsson, sitjandi forseti til átta ára, fékk mótframboð frá Baldri Ágústssyni og Ástþóri MagnússyniHagstofan

Kostnaður vegna forsetakosninganna 2016 nam 341 milljón króna. Ráðstafanir sem gerðar voru vegna Covid-19 fólu í sér aukinn kostnað, meðal annars ráðstöfun sem gripið var til til að fólki í sóttkví yrði gert kleift að kjósa.

Forsetaframboð Guðmundar Franklín kostaði tæpar fimm milljónir króna. Framlög Guðmundar sjálfs til framboðsins var rúmlega 1,6 milljón króna. Helsti kostnaðarliður rekstrarreikningsins voru auglýsingar og kynningarkostnaður eða 3,5 milljónir króna.

Guðni lagði ekki eins mikið til kosningabaráttunnar eins og sá sem skoraði hann á hólm. Kostnaður vegna framboðsins var rúmlega 1,5 milljón en rekstrartekjur hins vegar rúmar tvær milljónir. Afgangur var af framboði Guðna eða sem nam 612 þúsund krónum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×