Erlent

Tæp­lega þúsund ný dauðs­föll rakin til Co­vid-19 í Þýska­landi

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Frá aðallestarstöðinni í Köln.
Frá aðallestarstöðinni í Köln. Getty

Þjóðverjar hafa hert á samkomutakmörkunum í landinu til að reyna að stemma stigu við kórónufaraldrinum sem er í mikilli uppsveiflu í landinu. Aðgerðirnar gilda til 10. janúar hið minnsta en aðeins verður slakað á yfir jólahátíðina þar sem hverju heimili verður heimilt að hafa hjá sér fjóra gesti úr sinni nánustu fjölskyldu.

Dauðsföll í Þýskalandi af völdum Covid-19 voru 952 síðasta sólarhringinn, sem er nýtt met og rúmlega 27 þúsund manns greindust smitaðir.

Í Þýskalandi hefur verið lokað fyrir alla verslun og þjónustu, að matvöruverslunum og bönkum undanskildum. Veitingastaðir, barir og aðrir samkomusalir hafa verið lokaðir síðan í nóvember og enn harðari reglur hafa verið í gildi í sumum sveitarfélögum þar sem veiran hefur verið sérstaklega útbreidd.

Nú stendur einnig til að loka hárgreiðslustöðum auk þess sem áfengisneysla utandyra hefur verið bönnuð. Þá eru fyrirtæki hvött til að leyfa starfsfólki sínu að vinna heiman frá sér þar sem slíkt er gerlegt.

Alls hafa nú 23.427 dauðsföll verið rakin til Covid-19 í Þýskalandi frá upphafi heimsfaraldursins. Þá eru skráð smit í landinu nú um 1,4 milljónir.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×