Enski boltinn

Spilaði með höfuðverk og svima í níu mánuði í von um að fá nýjan samning

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jan Vertonghen lék með Tottenham í átta ár.
Jan Vertonghen lék með Tottenham í átta ár. getty/Matthew Ashton

Jan Vertonghen spilaði með einkenni heilahristings í níu mánuði í von um að fá nýjan samning hjá Tottenham.

Vertonghen varð fyrir höfuðmeiðslum þegar hann lenti í samstuði við samherja sinn, Toby Alderweireld, í leik Tottenham og Ajax í Meistaradeild Evrópu í fyrra.

Hann glímdi lengi við eftirköst höfuðmeiðslanna en spilaði þrátt fyrir það þar sem hann freistaði þess að fá nýjan samning hjá Tottenham.

„Margir vita það ekki en meiðslin höfðu mikil áhrif á mig. Ég var með höfuðverk og svima,“ sagði Vertonghen.

„Ég hélt áfram að spila sem ég hefði ekki átt að gera samkvæmt læknum. Ég þjáðist af höfuðmeiðslum í níu mánuði og það er ástæðan fyrir því að ég spilaði ekki vel. Ég átti eitt ár eftir af samningi mínum og fannst ég þurfa að spila til sýna mig fyrir Tottenham eða öðrum félögum. En þegar ég spilaði gat ég ekki neitt. Ég var ófær um að spila vel.“

Vertonghen segir að það hafi alfarið verið hans ákvörðun að spila þrátt fyrir eftirköst höfuðmeiðslanna.

Belginn náði ekki samkomulagi við Tottenham um nýjan samning og gekk í raðir Benfica í Portúgal á frjálsri sölu í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×