Innlent

Fjárbændur ætla að verja nytjarétt sinn á hálendinu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Erlendur Ingvarsson, bóndi í Skarði í Landsveit.
Erlendur Ingvarsson, bóndi í Skarði í Landsveit. Einar Árnason

Sauðfjárbændur sem sakaðir hafa verið um ofbeit á hálendinu segja þvert á móti að afréttarlönd séu í framför. Þeir hafa ekki í hyggju að gefa nytjaréttinn frá sér.

Landmannaafréttur hefur gjarnan verið tekinn sem dæmi hjá þeim sem vilja friða hálendið gagnvart sauðfjárbeit. Þetta er svæðið að Fjallabaki sem Land- og Holtamenn nytja en við fylgdum þeim í fjárleitum í haust, eins og fjallað var um í fréttum Stöðvar 2.

„Við erum bara ekki á sama máli og til dæmis Landgræðslan. Meðan landið er í framför þá teljum við okkur nýta landið rétt,“ segir Erlendur Ingvarsson, bóndi í Skarði í Landsveit.

„Það er svo fráleitt sem margir halda að það sé verið að ganga á afréttinn. Því það sjá það allir að hann er í mikilli framför,“ segir Geir Ófeigsson úr Næfurholti á Rangárvöllum.

Geir Ófeigsson í Næfurholti.Einar Árnason

„Við erum með stuttan tíma hérna inni á fjalli. Við förum hér um 10. júlí. Þetta eru sextíu dagar sem við erum að nýta þetta.

En grösin hérna inn frá eru mjög kjarnmikil á þeim tíma og eru okkur mjög mikilvæg í okkar búskaparferli,“ segir Erlendur.

Kristinn Guðnason fjallkóngur bendir á að bændur hafi í fimmtán ár staðið að uppgræðslu.

„Hér sérðu: Við erum að græða hér upp samfara beitinni,“ segir Kristinn og bendir á svæðin í kringum Áfangagil, og bætir við að það sé í samstarfi við Landgræðsluna.

Kristinn Guðnason, fjallkóngur Land- og Holtamanna.Einar Árnason

„Þó að manni finnist landgræðslustjóri stundum ekki vera í sama liði og við,“ segir fjallkóngurinn.

„Við erum með umráðaréttinn – nytjaréttinn á þessu svæði. Og honum ætlum við að halda,“ segir Erlendur.

„Það féll alveg dómur um það í þjóðlendumálum. Það er alveg skýrt að ríkið hefur umráðaréttinn yfir landinu en við erum með nytjaréttinn. Og það ætlum við að passa,“ segir Erlendur í Skarði.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2.

Hér má sjá kynningarstiklu þáttarins:


Tengdar fréttir

Landgræðslustjóri vill banna lausagöngu búfjár á Íslandi

Landgræðslustjóri vill banna lausagöngu búfjár á Íslandi. Hann bendir á að ríkið verji hálfum milljarði króna á hverju ári í girðingar til að verjast sauðfé og að þetta gæti einnig auðveldað bændum að smala.

Fjallmönnum fylgt í erfiðum leitum á Landmannaafrétti

Fjárleitir Land- og Holtamanna á Landmannaafrétti í síðari hluta septembermánaðar í haust voru með þeim erfiðustu um árabil sökum illviðris sem göngumenn hrepptu á hálendinu. Fjallkóngurinn Kristinn Guðnason fór þar fyrir flokki fimmtíu fjallmanna en göngunum lauk á sjöunda degi með réttum í Áfangagili norðan Heklu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.