Enski boltinn

Aubameyang með jafn mörg mörk fyrir Arsenal og Burnley ef víti eru dregin frá

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pierre-Emerick Aubameyang skallar boltann í eigið mark gegn Burnley.
Pierre-Emerick Aubameyang skallar boltann í eigið mark gegn Burnley. getty/Nick Potts

Pierre Emerick-Aubameyang hefur skorað jafn mörg mörk fyrir Arsenal og Burnley í ensku úrvalsdeildinni í vetur ef mörk úr vítaspyrnum eru ekki tekin með.

Arsenal tapaði sínum fjórða heimaleik í ensku úrvalsdeildinni í röð þegar liðið laut í lægra haldi fyrir Burnley, 0-1, í gær. Eina mark leiksins var sjálfsmark Aubameyangs. Arsenal er í 15. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með aðeins þrettán stig eftir tólf leiki.

Aubameyang hefur verið ískaldur á þessu tímabili, eða allt frá því hann skrifaði undir nýjan samning við Arsenal.

Gabon-maðurinn braut loks ísinn í gær þegar hann skoraði en því miður fyrir Arsenal-menn var það í vitlaust mark.

Aubameyang skoraði í 1. umferð ensku úrvalsdeildarinnar gegn Fulham en það er eina deildarmark hans fyrir Arsenal á tímabilinu sem er ekki úr víti. Hann tryggði Arsenal 0-1 sigur á Manchester United á Old Trafford 1. nóvember með marki af vítapunktinum.

Aubameyang hefur alls skorað fjögur mörk í fjórtán leikjum í öllum keppnum á þessu tímabili. Hann var næstmarkahæstur í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og skoraði sigurmark Arsenal í bikarúrslitaleiknum gegn Chelsea.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×