Enski boltinn

Henry slökkti á sjónvarpinu þegar hann sá Xhaka með fyrirliðabandið hjá Arsenal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Graham Scott rekur Granit Xhaka af velli í leik Arsenal og Burnley í gær.
Graham Scott rekur Granit Xhaka af velli í leik Arsenal og Burnley í gær. getty/Laurence Griffiths

Patrice Evra segir að Thierry Henry hafi slökkt á sjónvarpinu þegar hann sá Granit Xhaka með fyrirliðabandið hjá Arsenal.

Xhaka var rekinn af velli fyrir að grípa um háls Ashleys Westwood þegar Arsenal tapaði fyrir Burnley, 0-1, á Emirates í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Eftir leikinn sagði Evra sögu sem honum fannst lýsandi hvernig fyrrverandi hetjur Arsenal litu á Xhaka.

„Ég skal segja ykkur stutta sögu. Einn daginn bauð Thierry Henry mér heim til sín til að horfa á leik með Arsenal. Hann kveikti á sjónvarpinu og það fyrsta sem hann sá var Xhaka með fyrirliðabandið, að leiða Arsenal út á völlinn. Þá slökkti hann á sjónvarpinu,“ sagði Evra á Sky Sports eftir leikinn í gær. 

Evra sagði að Henry hefði ekki getað afborið að sjá Xhaka vera fyrirliða síns gamla liðs.

„Ég spurði hann hverju sætti og hann sagðist ekki geta horft á liðið sitt þar sem Xhaka væri fyrirliði og við horfðum ekki á leikinn. Þetta segir allt um það hvernig goðsagnir Arsenal líta á hann,“ sagði Evra.

Xhaka var fyrirliði Arsenal um tíma en fyrirliðabandið var tekið af honum eftir uppákomu í leik gegn Crystal Palace í fyrra.

Henry tók við fyrirliðabandinu hjá Arsenal af Patrick Vieira 2005 og var fyrirliði liðsins þar til hann fór til Barcelona 2007.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×