Erlent

Bóluefni Pfizer og BioNTech fær neyðarleyfi í Bandaríkjunum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að fyrsta bólusetningin muni fara fram „innan sólarhrings.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að fyrsta bólusetningin muni fara fram „innan sólarhrings. Getty/Rafael Henrique

Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna hefur samþykkt neyðarleyfi fyrir bóluefni Pfizer og BioNTech gegn covid-19. Stofnunin segir leyfið marka stórt skref í baráttunni við heimsfaraldurinn sem hefur kostað um 295 þúsund mannslíf í Bandaríkjunum.

Bóluefnið, sem veitir allt að 95% vörn gegn covid-19, reyndist samkvæmt úttekt stofnunarinnar vera bæði öruggt og árangursríkt. Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að fyrsta bólusetningin muni fara fram „innan sólarhrings.“

„Í dag hefur þjóðin okkar náð læknisfræðilegu kraftaverki,“ sagði Trump. „Við höfum framleitt öruggt og árangursríkt bóluefni á aðeins níu mánuðum.“

Áður en tilkynnt var um það í gærkvöldi að leyfið væri í höfn hafði Lyfja- og matvælastofnun Bandaríkjanna sætt töluverðum þrýstingi af hálfu Bandaríkjastjórnar um að heimila notkun bóluefnisins. Stephen Hahn, forstjóri stofnunarinnar, hafði að því er fjölmiðlar vestanhafs greindu frá, verið beðinn um að veita leyfi fyrir bóluefninu í síðasta lagi á föstudag, eða að öðrum kosti láta af störfum. Sjálfur hefur hann sagt þetta vera ósatt.

Alex Azar, heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, hafði áður sagt í samtali við fjölmiðla að ráðuneyti hans hyggðist vinna með Pfizer að því að koma bólusetningu af stað strax á mánudag eða þriðjudag.

Neyðarleyfi fyrir notkun bóluefnis Pfizer hefur þegar verið samþykkt í Bretlandi, Kanada, Barein og Sádí-Arabíu. Líkt og í þeim ríkjum er gert ráð fyrir að fyrstu skammtar bóluefnisins verði gefnir öldruðum, heilbrigðisstarfsfólki og neyðarviðbragðsaðila.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.