Erlent

Mæla gegn bólusetningu þeirra sem þjást af alvarlegum ofnæmum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Bólusetningar gegn Covid-19 hófust í Bretlandi í gær.
Bólusetningar gegn Covid-19 hófust í Bretlandi í gær. epa/Ben Birchall

Bresk lyfjaeftirlitsyfirvöld hafa varað einstaklinga sem þjást af alvarlegum ofnæmum frá bólusetningu með bóluefni Pfizer og BioNTech gegn Covid-19. 

Tilmælin voru gefin út eftir að tveir heilbrigðisstarfsmenn sýndu ofnæmisviðbrögð eftir að hafa fengið bóluefnið í gær.

Þau ná til þeirra sem hafa fengið alvarlegt ofnæmi eftir að hafa neytt matar eða lyfja, eða verið bólusettir með öðrum bóluefnum.

Einstaklingarnir sem sýndu ofnæmi eftir að hafa fengið Pfizer/BioNTech bóluefnið eru sagðir hafa sýnt svokölluð „anaphylactoid“ viðbrögð, sem BBC segir meðal annars felast í útbrotum, öndunarþyngslum og í sumum tilvikum blóðþrýstingsfalli.

Ekki er um að ræða sama ástand og „anaphylaxis“, það er að segja bráðaofnæmi eða ofnæmislost, sem getur valdið dauða.

Fólkið er sagt hafa náð sér en báðir einstaklingar höfðu áður sýnt alvarleg ofnæmisviðbrögð og gengu með adrenalínpenna á sér.

Haft er eftir Stephen Powis, framkvæmdastjóra lækninga hjá bresku heilbrigðisþjónustunni, að um sé að ræða algeng viðbrögð við nýjum bóluefnum og að tilmælin væru öryggisráðstöfun.

Í prófunum á bóluefninu sýndi einn af hverjum þúsund einstaklingum ofnæmisviðbrögð en mörg þúsund manns voru bólusettir í Bretlandi í gær.

Peter Openshaw, prófessor í ónæmisfræðum við Imperial College London, segir þá staðreynd að vitneskja liggi þegar fyrir um tilvikin tvö og að tilmælin hafi verið gefin út sýni að eftirlit með bólusetningaferlinu sé að virka.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×