Erlent

Stefnir á að bólu­­setja 100 milljónir á sínum fyrstu 100 dögum í em­bætti

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna.
Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna. Getty/Joe Raedle

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, stefnir á að 100 milljón Bandaríkjamenn verði bólusettir fyrir kórónuveirunni á fyrstu hundrað dögum hans í embætti.

Biden sagði á blaðamannafundi í dag, þar sem hann kynnti teymið sem leiða mun baráttuna gegn veirunni þegar hann tekur við embætti, að ólíklegt væri að Bandaríkin muni sigrast á veirunni á fyrstu mánuðum hans í embætti. Hann vonist þó til að aðgerðir sem hann boði muni breyta stöðunni í samfélaginu.

Í dag, þriðjudag, var skýrsla kynnt sem talin er að muni greiða veginn fyrir því að bóluefni Pfizer og BioNTech verði samþykkt til notkunar og dreift til Bandaríkjamanna.

Meira en 15 milljón Bandaríkjamenn hafa smitast af veirunni og 285 þúsund látið lífið vegna hennar, samkvæmt tölum Johns Hopkins háskólans. Ekkert annað ríki í heiminum hefur greint jafn mörg tilfelli eða séð jafn marga láta lífið vegna veirunnar.

Mörg ríki Bandaríkjanna eru illa stödd vegna faraldursins og er sums staðar metfjöldi að greinast dag hvern og aldrei hafa jafn margir legið inni á sjúkrahúsum vegna veirunnar í sumum ríkjum. Sérfræðingar hafa kennt miklum ferðalögum Bandaríkjamanna vegna Þakkagjörðarhátíðarinnar um.

Joe Biden tilkynnti í dag að hann hyggist tilnefna Xavier Becerra, ríkissaksóknara Kaliforníu, til embættis heilbrigðisráðherra. Þá muni hann tilnefna Rochelle Walensky til stöðu yfirmanns Heilsuverndarstofnunarinnar (e. Centers for Disease Control and Prevention). Þá mun Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjastjórnar, halda áfram störfum þegar Biden tekur við.


Tengdar fréttir

Vill Austin sem varnar­mála­ráð­herra

Joe Biden hefur valið herforingjann fyrrverandi, Lloyd Austin, til að gegna embætti varnarmálaráðherra í ríkisstjórn sinni. Frá þessu greina bandarískir fjölmiðlar þó að hvorki Biden né Austin hafi enn staðfest fréttirnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×