Kerfið er hannað til að skjóta niður flugvélar og jafnvel langdrægar eldflaugar í allt að 400 kílómetra fjarlægð.
Eyjurnar sem um ræðir eru fjórar og eru þær á milli Hokkaido og Kamtjakaskaga. Rússar hernumu þær á síðustu dögum seinni heimsstyrjaldarinnar. Deilur Japans og Rússlands um yfirráð yfir eyjunum hafa síðan þá komið í veg fyrir að ríkin hafi skrifað undir formlegan friðarsáttmála.
Umfangsmiklar og langvarandi viðræður í gegnum árin hafa engum lausnum skilað.
Rússar kalla eyjurnar Kurileyjar og Japanar kalla þær Norðursvæðin. Loftvarnakerfinu hefur verið komið fyrir á eyjunni Iturup, sem er mjög nærri Hokkaido.
Samkvæmt frétt Reuters hefur ríkisstjórn Japans lagt fram formlega kvörtun vegna eldflauganna. Miðað við drægi þeirra gætu þær verið notaðar til að skjóta niður flugvélar yfir Hokkaido.
Áður hafa Rússar þó komið fyrir orrustuþotum og eldflaugum sem eru sérhannaðar til að granda skipum á eyjunum.