Innlent

„Mér líður betur núna en klukkan átta í morgun“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi í morgun. Þvottahúsið er staðsett í Freyjunesi sem er að finna í norðanverðum bænum.
Frá vettvangi í morgun. Þvottahúsið er staðsett í Freyjunesi sem er að finna í norðanverðum bænum. Vísir/Tryggvi Páll

Preben Pétursson, sem rekur Grand þvott á Akureyri, þar sem eldur kom upp í morgun, segir að það hafi aðeins liðið um sjö til átta mínútur frá því að öryggiskerfi gerði viðvart um eld í húsnæðinu og þangað til búið var að slökkva eldinn.

Tilkynning um að eldur væri laus í þvottahúsinu barst um klukkan átta í morgun og var slökkviliðið á Akureyri kallað út. Eldurinn kviknaði í um tvö þúsund fermetra iðnaðarhúsi þar sem ýmisleg starfsemi er, en þvottahúsið Grand þvottur er fyrirferðarmest. Slökkvistarf gekk hins vegar mjög greiðlega.

„Mér líður betur núna en klukkan átta en í morgun,“ segir Preben í samtali við Vísi. Hann segir að eldurinn hafi kviknað í iðnaðartölvu sem stýri gufukatli. Um hjartað í þvottahúsinu sé að ræða.

Segist Preben hafa fengið þær upplýsingar að töluverður eldur hafi verið í iðnaðartölvunni. Öryggiskerfi fór í gang og gerði mönnum viðvart um eldinn.

Frá vettvangi í morgunVísir/Tryggvi Páll

„Öryggiskerfið bjargaði því að ekki fór verr,“ segir Preben.

Viðbrögð öryggisvarðar, starfsmanna sem mættir voru til vinnu og skjótt viðbragð slökkviliðsins virðast því hafa afstýrt miklu tjóni, auk þeirrar staðreyndar að eldurinn kom upp í um tólf fermetra eldvarnarhólfi, sem kom í veg fyrir að eldurinn bærist um húsið.

Aðspurður um tjón segir Preben að það sé líklega ekki verulegt, en þó eitthvað. Guðs mildi sé þó að engin slys hafi orðið á fólki. 

Reiknar hann þó með að geta komið starfseminni aftur í gang í dag að einhverju leyti en þegar Vísir náði tali af honum var hann á fullu að vinna í því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×