Innlent

Jón Páll áfrýjar nauðgunardómnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Páll Eyjólfsson var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá 2014 til 2018.
Jón Páll Eyjólfsson var leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar frá 2014 til 2018.

Jón Páll Eyjólfsson, fyrrverandi leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, ætlar að áfrýja skilorðsbundnum fangelsisdómi fyrir nauðgun sem hann hlaut í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag. Þetta segir Björgvin Jónsson, lögmaður Jóns Páls, í samtali við Ríkisútvarpið.

Jón Páll var dæmdur í tveggja og hálfs árs skilorðsbundið fangelsi á mánudag fyrir að nauðga konu á hótelherbergi erlendis árið 2008. Þá var hann dæmdur til að greiða konunni 2,5 milljónir króna í miskabætur.

Björgvin lögmaður Jóns Páls segir skjólstæðing sinn lýsa yfir sakleysi í málinu og því verði málinu áfrýjað til Landsréttar.

Jón Páll tilkynnti starfslok sín hjá leikfélaginu í árslok 2017 og vísaði til þess að geta sökum fjárhagsskorts ekki náð settum markmiðum hjá leikfélaginu. Hann myndi þó stýra leikfélaginu fram á vor.

Svo fór hins vegar ekki því í janúar 2018 var honum gert að hætta sökum vantrausts hjá stjórn Leikfélags Akureyrar. Í ljós kom að stjórnin hafði verið upplýst um ásökun á hendur Jóni Páli um nauðgun.

Jón Páll sendi frá sér yfirlýsingu og sagði að árið 2013 hefði að frumkvæði þolandans í málinu farið af stað vinna að sátt í málinu. Stefnt hefði verið að henni þegar MeToo-byltingin fór af stað.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×