Innlent

Ný lög um Endurupptökudóm geta liðkað fyrir endurupptöku mála

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands.
Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands. Vísir

Nú þegar yfirdeild Mannréttindadómstólsins hefur staðfest dóm réttarins, vakna eflaust margar spurningar um hugsanlegar afleiðingar er varða mál þeirra aðila þar sem umræddir fjórmenningar, sem ekki voru skipaðir með lögmætum hætti, dæmdu í.

Lög um sérstakan endurupptökudómstól tóku gildi í dag, 1. desember. Málsaðilar munu þannig geta borið mál sín undir Endurupptökudóminn, telji þeir ástæðu til. Það kemur síðan til kasta Endurupptökudóms að meta hvort málin uppfylli skilyrði um endurupptöku.

Ólöf Finnsdóttir, framkvæmdastjóri dómstólasýslunnar, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í dag að umgjörð dómsins sé tilbúin. Nú eigi aðeins eftir að skipa í dóminn. Hún kveðst binda vonir við að hann geti tekið til starfa fljótlega á nýju ári þegar hann hefur verið fullskipaður.

Yfirdeild Mannréttindadómstólsins staðfesti í morgun dóm réttarins í Landsréttarmálinu svokallaða.Vísir/EPA

Niðurstöður alþjóðlegra dómstóla geta talist ný gögn

Kristín Benediktsdóttir, dósent við lagadeild háskóla Íslands, segir að engin skylda hvíli á íslenska ríkinu til að endurupptaka málin. Hún segir margt benda til þess að ný lög um Endurupptökudóm muni liðka fyrir þeim skilyrðum sem uppfylla verður til að aðilar málanna fái í gegn endurupptöku mála sinna.

„Það er aðeins búið að breyta skilyrðunum frá því sem var áður þegar endurupptökunefnd var með þetta og svo Hæstiréttur og dómstólarnir áður. Nú er gefið í skyn að niðurstöður alþjóðlegra dómstóla geti talist ný gögn eða nýjar upplýsingar. Og það er náttúrulega skilyrði að það séu ný gögn eða upplýsingar sem bendi til þess að málsatvikin hafi verið önnur. Lykilatriðið er að það geti haft þær afleiðingar að þær breyti niðurstöðunni“.

Áttu von á holskeflu mála sem munu koma til kasta Endurupptökudóms eða er erfitt að spá fyrir um framhaldið?

„Það er óskaplega erfitt að meta þetta. Þetta eru alls ekki mörg mál í sjálfu sér, alls ekki. Væntanlega eru sumir sáttir við sína niðurstöðu. Það er ómögulegt að segja. […] Ég efast um að þetta verði einhver holskefla, ég get ekki ímyndað mér það.“


Tengdar fréttir

Sig­ríður segir dóm Mann­réttinda­dóm­stólsins engu breyta

Sigríður Andersen segir dóm yfirdeildar Mannréttindadómstólsins ekki koma á óvart. Hún hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni og dómur Hæstaréttar um hæfni dómara við Landsrétt gildi. Ríkinu sé ekki gerð skaðabótaskylda með niðursötu yfirdeildarinnar og því þurfi ekki að taka upp mál fyrir Landsrétti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×