Erlent

Skima milljónir og grípa til harðra aðgerða í þremur borgum í Kína

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá borginni Tianjin, þar sem vel á þremur milljónum íbúa hefur verið gert að fara í skimun eftir að fimm hafa greinst með Covid-19 á undanfarinni viku.
Frá borginni Tianjin, þar sem vel á þremur milljónum íbúa hefur verið gert að fara í skimun eftir að fimm hafa greinst með Covid-19 á undanfarinni viku. AP/Zhao Zishuo/Xinhua

Yfirvöld í Kína hafa gripið til hertra sóttvarnaraðgerða eftir að útbreiðsla nýju kórónuveirunnar greindist í þremur borgum þar í síðustu viku. Þar er um að ræða borgirnar Tianjin, Sjanghaí og Manzhouli og hefur skólum verið lokað og samkomubanni beitt. Þá stendur til að taka milljónir íbúa borganna í skimun á næstu dögum.

Í Sjanghaí eru þessar aðgerðir til komnar vegna þess að sjö hafa greinst smitaðir í borginni frá því á föstudaginn. Í Tianjin greindust fimm smitaðir í síðustu viku og í Manzholui eiga allir rúmlega 200 þúsund íbúar borgarinnar að fara í skimun eftir að tvö tilfelli greindust á laugardaginn, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Global Times, miðill í eigu kínverska ríksins, segir að í Tianjin eigi 2,6 milljónir íbúa eins hverfis borgarinnar að fara í skimun. 

Yfirvöld í landinu hafa gripið til sambærilegra aðgerða í hvert sinn sem smitaðir greinast í landinu. Skólum er lokað, samkomubann og jafnvel útgöngubann er sett á og fjölmörgum er gert að fara í skimun. Heilu byggðarlögunum hefur nánast verið lokað.

Í einu tilfelli var fjölbýlishús þar sem fimm smit greindust einangrað. Til marks um þetta má vísa til Wuhan, þar sem veiran kom fyrst upp. Þar var borginni lokað og íbúum gert að halda sig heima í rúma tvo mánuði.

Kínverjar hafa verið gagnrýndir fyrir þessar aðgerðir og þær sagðar harðneskjulegar. Yfirvöld í Kína hafa þó stært sig af því hve vel þær hafa virkað.

Samkvæmt opinberum tölum hafa einungis 86.442 greinst smitaðir í Kína frá því veiran greindist fyrst í lok síðasta árs og 3.634 dáið.

„Í öllum heiminum er Kína eina landið sem hefur getuna til að komast í núll [smitaða],“ sagði Zeng Guang, einn af yfirmönnum Sóttvarnastofnunar Kína við fjölmiðla í september. Hann sagði að til lengri tíma væri þetta besta leiðin í sóttvörnum.

Hér að neðan má sjá myndband frá alþjóðaflugvellinum í Sjanghaí þar sem 17.719 starfsmönnum var gert að fara í skimun í gær eftir að fjórir greindust smitaðir á flugvellinum. Myndbönd af vettvangi sýna að til deilna kom á milli starfsmanna flugvallarins og þeirra heilbrigðisstarfsmanna sem sendir voru til að framkvæma skimunina.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.