Enski boltinn

Annar sigur Brighton á tímabilinu kom á Villa Park

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Danny Welbeck.
Danny Welbeck. vísir/Getty

Brighton heimsótti Aston Villa í ensku úrvalsdeildinni í dag en Brighton hafði aðeins unnið einn leik þegar kom að leik dagsins á meðan Villa hefur farið illa með stóru liðin í upphafi móts.

Aston Villa varð fyrir áfalli strax á fyrstu mínútu leiksins þar sem Ross Barkley þurfti að fara meiddur af velli. Annað áfall dundi svo yfir á 12.mínútu þegar Danny Welbeck kom Brighton yfir eftir stoðsendingu Adam Lallana. 

Brighton leiddi í leikhléi en strax í upphafi síðari hálfleiks jafnaði Ezri Konsa metin fyrir heimamenn. Solly March náði forystunni aftur fyrir gestina á 56.mínútu.

Tariq Lamptey fékk að líta tvö gul spjöld með skömmu millibili á lokamínútum leiksins og var þar með rekinn af velli. Strax í kjölfarið var dæmd vítaspyrna þegar March virtist brjóta á Trezeguet. Michael Oliver, dómari leiksins, dró vítaspyrnudóminn til baka eftir að hafa skoðað atvikið í VAR og trúðu heimamenn vart sínum eigin augum þar sem virtist vera um augljóst brot að ræða.

Fleiri urðu mörkin þó ekki og annar sigur Brighton á tímabilinu staðreynd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×