Erlent

Johnson sagður hafa reynt að útvatna skýrslu um framferði ráðherra

Kjartan Kjartansson skrifar
Johnson lýsti í gær stuðningi við Priti Patel, innanríkisráðherra, þrátt fyrir að sérfræðingur í siðareglum ráðherra hefði komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið reglurnar með framkomu sinni við starfsfólk ráðuneytis síns.
Johnson lýsti í gær stuðningi við Priti Patel, innanríkisráðherra, þrátt fyrir að sérfræðingur í siðareglum ráðherra hefði komist að þeirri niðurstöðu að hún hefði brotið reglurnar með framkomu sinni við starfsfólk ráðuneytis síns. Vísir/EPA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, er sagður hafa reynt að útvatna niðurstöður skýrslu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar um siðareglur ráðherra um að innanríkisráðherrann hafi lagt starfsmenn ráðuneytis síns í einelti. Ráðgjafinn sagði af sér eftir að Johnson lýsti yfir trausti á innanríkisráðherrann í gær.

Priti Patel, innanríkisráðherra, var talin hafa brotið siðareglur ráðherra með því að öskra á starfsfólk og hóta því. Alex Allan, ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í siðareglum ráðherra, taldi Patel hafa sýnt af sér eineltistilburði. Hann lét af störfum þegar Johnson sagðist styðja Patel.

Breska ríkisútvarpið BBC og dagblaðið Times greina frá því í dag að Johnson hafi reynt að sannfæra Allan um að tóna niður niðurstöður sínar um Patel en án árangurs. Sérstaklega hafi Johnson viljað að Allan talaði ekki um að í hegðun Patel hafi falist kúgunar- eða eineltistilburðir, að sögn Reuters-fréttastofunnara.

Talskona Johnson segir að hann hafi rætt við Allan til að skilja málefnin sem voru til umfjöllunar. Ályktanir í skýrslu Allan séu að öllu leyti hans.

Umrót hefur verið í ríkisstjórn Johnson að undanförnu. Dominic Cummings, einn nánasti ráðgjafi hans og einn hugmyndafræðinga útgöngu Bretlands úr Evrópusambandsins, lét af störfum í síðustu viku eftir harðar innanhússdeilur á stjórnarheimilinu.

Johnson var meðal annars sagður hafa verið ósáttur við að Cummings og samskiptastjóri Downing-strætis 10 hafi verið gjarnir á að tala við fjölmiðla á laun, í sumum tilfellum til að koma höggi á Carrie Symonds, unnustu forsætisráðherrans.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.