Erlent

Yfirmaður siðanefndar segir af sér eftir að Johnson lýsti stuðningi við ráðherra

Kjartan Kjartansson skrifar
Johnson stendur þétt að baki Priti Patel, innanríkisráðherra, sem er talin hafa kúgað undirmenn sína í ráðuneytinu.
Johnson stendur þétt að baki Priti Patel, innanríkisráðherra, sem er talin hafa kúgað undirmenn sína í ráðuneytinu. Vísir/EPA

Ráðgjafi bresku ríkisstjórnarinnar um siðareglur ráðherra sagði af sér í dag eftir að Boris Johnson, forsætisráðherra, lýsti yfir stuðningi við ráðherra sem er talinn hafa sýnt af sér kúgunartilburði gagnvart starfsmönnum ráðuneytis síns.

Niðurstaða rannsóknar Alex Allan, siðaráðgjafa ríkisstjórnarinnar, á framferði Priti Patel, innanríkisráðherra, var að hegðun hennar mætti lýsa sem „kúgandi“ [e. bullying] þó að hugsanlega hafi það ekki verið með ráðum gert.

Patel sendi frá sér yfirlýsingu og baðst afsökunar á að hegðun sín hefði „valdið fólki uppnámi í fortíðinni“.

Johnson sagðist í yfirlýsingu um niðurstöður skýrslu Allan bera „fullt traust“ til Patel eftir að hún baðst afsökunar á að hafa „óviljandi“ valdið samstarfsfólki sínu uppnámi. Fleiri ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa komið Patel til varnar í dag.

Allan tilkynnti um afsögn sína þegar Johnson birti yfirlýsinguna, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hann sagðist gera sér grein fyrir að það væri forsætisráðherrans að meta hvort að framferði ráðherra bryti gegn siðareglum.

„En mér finnst það rétt að ég segi nú af mér embætti sem óháðar ráðgjafi forsætisráðherrans um siðareglurnar,“ sagði hann.

Nokkrir opinberir starfsmenn sökuðu Patel um að leggja sig í einelti eða beita þá kúgun. Philip Rutnam, hæst setti opinberi starfsmaður innanríkisráðuneytisins, sagði af sér í mars og sagði þá að Patel hefði lítillækkað starfsmenn og skapað andrúmsloft ótta í ráðuneytinu.

AP-fréttastofan segir að forsætisráðuneyti Johnson hafi tafið birtingu niðurstaðna rannsóknarinnar á Patel um margra mánaða skeið.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem írafár skapast í kringum Patel. Þegar hún var ráðherra alþjóðlegrar þróunar árið 2017 kom í ljós að hún fundað á laun með stjórnmálaleiðtogum og samtökum í Ísrael í fylgd með áhrifamiklum málafylgjumanni Ísraels innan Íhaldsflokksins. Hún lét utanríkisráðuneytið ekki vita af erindrekstri sínum í Ísrael og var neydd til að segja af sér í kjölfarið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×