Innlent

Krafðist „vanvirðingargjalds“ og kýldi konu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Myndband af líkamsárásinni var birt á Facebook-síðu bardagamannsins um helgina. Þar var hún í birtingu í vel á annan sólarhring áður en hún var fjarlægð.
Myndband af líkamsárásinni var birt á Facebook-síðu bardagamannsins um helgina. Þar var hún í birtingu í vel á annan sólarhring áður en hún var fjarlægð.

Karlmaðurinn sem birti myndband af sér á Facebook um síðustu helgi þar sem hann gengur í skrokk á öðrum manni fékk dæmdar 1,5 milljónir króna í bætur vegna stórfelldrar líkamsárásar sem hann varð fyrir í ágúst í fyrra. Ákærði í málinu hlaut tæplega fjögurra ára dóm en sá sagðist vera að koma systur sinni til varnar.

Segja má að undirheimarnir logi þessa dagana og myndbönd sem sýni ofbeldi og hótanir fari sem eldur í sinu í skilaboðum á Facebook. Fréttastofu berast ábendingar um myndbönd sem tengjast umræddum karlmanni sem er þjálfaður í bardagaíþróttum.

Allt bendir til þess að kveikt hafi verið í íbúð karlmannsins, sem verður til aðgreiningar kallaður bardagamaður í þessari frétt, í Úlfarsárdal á þriðjudagskvöld. Fréttastofu barst myndband þar sem bensínsprengju virðist kastað inn í íbúð bardagamannsins í fjölbýlishúsi við Friggjarbrunn.

Í framhaldinu hefur myndband af bardagamanninum farið í umferð þar sem hann heldur á riffli og hótar því að drepa karlmann sem hann segir skulda sér afsökunarbeiðni. Mögulega vegna brunans á þriðjudagskvöld.

Lögregla vildi lítið tjá sig um málið í gær að því frátöldu að það væri í rannsókn. Ekki hefur náðst í fulltrúa lögreglu í dag þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Krafðist vanvirðingargjalds

Greint var frá því í nóvember í fyrra að karlmaður á þrítugsaldri sætti ákæru fyrir tilraun til manndráps. Var honum gefið að sök að hafa stungið annan karlmann, títtnefndan bardagamann, á bílastæði Bónus við Nýbýlaveg í Kópavogi.

Dómur var kveðinn upp í mars og hlaut Kristófer Bæring Sigurðarsyni þriggja ára og níu mánaða dóm fyrir líkamsárásina. Hann rauf skilorð við árásina. 

Rétt er að taka fram að Kristófer tengist ekki þeim málum sem eru í gangi á höfuðborgarsvæðinu og tengjast bardagamanninum. Hann afplánar nú dóm sinn.

Aðspurður um aðdraganda árásarinnar bar Kristófer að bardagamaðurinn hefði kýlt systur Kristófers tvisvar í höfuðið eftir að systkinin hefðu brugðist illa við skyndilegri 200 þúsund króna rukkun bardagamannsins um „vanvirðingargjald“. Upphæð sem árásarmaðurinn sagði að móðir þeirra gæti greitt.

Þekkt er að handrukkarar, menn sem hóta ofbeldi fái þeir ekki sínu fram, krefja aðila um sektir eða greiðslur á eigin forsendum.

Blóðugur á flótta

Tildrög árásarinnar voru þau að systir Kristófers hafði sótt karlmennina tvo og ekið þá á milli staða. Fóru þeir meðal annars saman í ljós. Lauk bíltúrnum þannig að bíllinn var stöðvaður við Bónus á Nýbýlavegi.

Systkinin báru fyrir dómi að hún hefði stöðvað bílinn vegna ósættis við bardagamanninn en þau sátu fram í og Kristófer í aftursæti. Þau sögðu hann hafa kýlt systur Kristófers ítrekað í andlitið. Þá sögðu þau að Kristófer hefði brugðist við, rifið í bardagamanninn til að stöðva barsmíðarnar. Þá greindi faðir Kristófers og vitni sem tóku hann upp í bíl sinn, blóðugan á flótta, að tilefnið hefði verið árás á systur hans.

Bardagamaðurinn neitaði því hins vegar að hafa slegið konuna í andlitið eins og systkinin lýstu. Dómurinn taldi hins vegar sannað með trúverðugum framburði Kristófers, vitnisburði systur hans og með stoð í framburði vitna um frásögn hennar að tilefni árásarinnar hefði verið högg sem bardagamaðurinn veitti konunni.

Vildi fá bardagamanninn út úr bílnum

Í framhaldinu voru Kristófer og bardagamaðurinn að mestu tveir til frásagnar hvað gerðist í átökum þeirra í bílnum og hvernig bardagamaðurinn hlaut áverka sína.


Að neðan má sjá ákæruna í málinu

Málið er höfðað með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri 28. október 2019, á hendur:

„Kristófer Bæring Sigurðarsyni,

fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 4. ágúst 2019 í bifreið, á bifreiðastæði við Bónus, Nýbýlavegi 4, Kópavogi, veist með ofbeldi að A, stungið hann nokkrum sinnum með hníf í líkama og höfuð og slegið hann nokkrum höggum með hnefa og/eða barefli í höfuð, allt með þeim afleiðingum að A hlaut 8 sm langan skurð á vinstri kinn sem náði inn í vörina, 8-9 sm langan skurð á hægra gagnaugasvæði sem náði inn að Bra, 6 og 8 sm langa skurði á hálsi hægra megin, 1,5 sm langan skurð á brjóstkassa vinstra megin og andlitsbeinabrot á kinnbeinssvæði hægra megin.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er krafist upptöku á eldhúshníf af óþekktri gerð og hnífsblaði af gerðinni IKEA, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, samkvæmt heimild í 1. mgr. 69. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.


Kristófer var gefið að sök að hafa veist með ofbeldi að bardagamanninum og stungið nokkrum sinnum með hníf í líkama og höfuð. Kvað bardagamaðurinn stungurnar hafa verið sex eða sjö talsins. Kristófer bar að hann hefði haldið á hnífnum í vinstri hendi og lagt hnífinn til móts við vinstri vanga árásarmannsins í því skyni að fá hann til að fara út úr bílnum.

Kvaðst Kristófer ekki hafa beitt hnífnum af ásetningi og áverkarnir hefðu hlotist í átökum þeirra eftir að bardagamaðurinn sneri sér við í framsætinu og teygði sig á milli framsætanna. Kristófer sagði það ekki hafa vakað yfir sér að veita bardagamanninum áverka og neitaði fyrir tilraun til manndráps.

Fjórar stungur sannaðar

Héraðsdómur taldi sannað með framburði Kristófers og vitnisburði bardagamannsins að Kristófer hefði stungið hann fjórum sinnum í líkama og höfuð með þeim afleiðingum að bardagamaðurinn hlaut 8 sentímetra langan skurð á vinstri kinn sem náði inn á vörina, 8-9 sentímetra langan skurð á hægra gagnaugasvæði sem náði inn að eyra, sex og átta sentímetra langa skurði á hálsi hægra megin og 1,5 sentímetra langan skurð á brjóstkassa vinstra megin.

Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars en hefur ekki verið birtur á vef dómstólsins.Vísir/Vilhelm

Hann hafi því verið valdur að áverkunum sem lýst var í ákæru fyrir utan andlitsbeinabrot sem taldist ekki sannað að Kristófer hefði veitt bardagamanninum.

Dómurinn taldi framburð Kristófers af atburðarásinni trúverðugan, fengi stoð í rannsóknargögnum og vitnisburði systur hans. Vitnisburður bardagamannsins væri ekki trúverðugur hvað varðaði að stungurnar hefðu verið sex eða sjö.

Féllust ekki á að um neyðarvörn væri að ræða

Þá var Kristófer ákærður fyrir að hafa slegið bardagamanninn nokkur högg með hnefa eða barefli í höfuð. Bardagamaðurinn taldi Kristófer þó ekki hafa slegið sig með hnefa og var hann því sýknaður af þeim hluta ákærunnar.

Hvað varðaði með barefli taldi bardagamaðurinn höggin hafa verið að minnsta kosti tíu. Kristófer neitaði þessu. Ekkert barefli fannst á vettvangi og læknisrannsóknir gáfu engar vísbendingar um að þetta ætti við rök að styðjast. Gegn neitun Kristófers var hann sýknaður af þessum hluta ákærunnar.

Bardagamanninum voru dæmdar 1,5 milljónir króna í miskabætur vegna skaða sem hann hlaut á andliti.Vísir/Vilhelm

Kristófer var að lokum ákærður fyrir að hafa orðið valdur að andlitsbeinabroti sem hann neitaði. Sérfræðilæknir taldi að áverkamerki ættu að sjást á húðinni þegar um ferskt brot væri að ræða. Engum slíkum áverkjamerkjum var lýst í læknisvottorði. Taldist ekki hafa verið færð fram sönnun að brotið væri nýtt. Verulegur vafi léki þó á því en Kristófer nyti vafans hvað þetta varðaði.

Kristófer bar fyrir sig neyðarvörn í dómsal. Dómurinn féllst ekki á það og sagði beitingu Kristófers á hnífnum í átökunum eftir að hafa lagt hann að vanga bardagamannsins svo alvarlega og hættulega að ekki væri hægt að samþykkja neyðarvörn.

Hefðu getað verið lífshættulegir áverkar

Héraðsdómur segir í niðurstöðu sinni að áverkarnir sem Kristófer veitti bardagamanninum hafi ekki reynst lífshættulegir en hefðu þó getað verið það. Kristófer var kærður fyrir tilraun til manndráps en héraðsdómur taldi ekki sannað að honum hlyti að hafa verið ljóst að langlíklegast væri að bardagamaðurinn biði bana af atlögunni. Ekkert benti til annars en Kristófer hefði virkilega viljað losna við bardagamanninn út úr bílnum.

Beiting hnífsins væri mjög hættuleg og teldist til stórfelldrar líkamsárásar. Í ljósi fyrri sakaferils Kristófers og þeirrar staðreyndar að hann rauf skilorð með broti sínu þótti refsing hans hæfilega ákvörðuð þriggja ára og níu mánaða fangelsi.

Þá þóttu 1,5 milljón króna í miskabætur frá Kristófer til bardagamannsins hæfileg í ljósi þess að afleiðingarnar væru ör og lýti í andliti.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar stóð að systir Kristófers væri fyrrverandi kærasta bardagamannsins. Svo er ekki og hefur verið leiðrétt.


Tengdar fréttir

Kviknaði í íbúð mannsins sem birti árásina á Facebook

Rannsókn er hafin á eldsupptökum í fjölbýlishúsi í Úlfarsárdal í Reykjavík í gærkvöldi. Íbúðin var vettvangur ljótrar líkamsárásar sem birt var myndband af á Facebook um helgina. Enginn var heima þegar slökkvilið mætti á vettvang og sinnti slökkvistarfi.

Handtóku karlmann sem sýndi grófa líkamsárás á Facebook

Lögregla handtók í gær tæplega þrítugan karlmann sem birti myndband af sér á Facebook þar sem hann gengur í skrokk á öðrum manni. Myndbandið er enn í birtingu á Facebook nú rúmum sólarhring eftir að það var sett á samfélagsmiðilinn.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.