Erlent

Flýta banni við bensín- og dísilbílum um fimm ár

Kjartan Kjartansson skrifar
Bannað verður að selja nýja bensín- og dísilbíla á Bretlandi eftir 2035 samkvæmt áætlun ríkisstjórnar Boris Johnson.
Bannað verður að selja nýja bensín- og dísilbíla á Bretlandi eftir 2035 samkvæmt áætlun ríkisstjórnar Boris Johnson. Vísir/EPA

Breska ríkisstjórnin kynnti áform um að flýta banni við nýjum bensín- og dísilbílum um fimm ár í dag. Bannið á nú að taka gildi árið 2030 og vera liður í gera Bretland kolefnishlutlaust fyrir árið 2050.

Upphaflega áttið bannið sem Boris Johnson, forsætisráðherra, kynnti í febrúar að taka gildi árið 2035. Það var á grundvelli laga sem voru samþykkt í fyrra um að Bretlandi nái kolefnishlutleysi fyrir miðja öldina. Til þess þarf róttækar breytingar á flestum sviðum bresks samfélags, þar á meðal samgögnum.

Reuters-fréttastofan segir að með áformunum verði sala á blendingsbílum og sendiferðabílum einnig bönnuð eftir 2035. Lagðar verða 582 milljónir punda, jafnvirði meira en 105 milljarða íslenskra króna, í styrki til þeirra sem kaupa bifreiðar sem losa ekkert eða mjög lítið kolefni.

Í grein sem Johnson skrifaði í Financial Times í dag lagði hann áherslu á að endurreisn eftir efnahagskreppuna sem hefur fylgt kórónuveirufaraldrinum verði umhverfisvæn.

„Nú er tíminn til að búa sig undir grænan bata með sérfræðistörfum sem gefa fólki þá ánægju að vita að það sé að hjálpa til við að gera landið hreinna, grænna og fallegra,“ skrifaði Johnson.

Hagsmunasamtök bílaiðnaðarins hafa tekið stefnu Johnson fagnandi. Styrkir vegna kaupa á umhverfisvænni bifreiðum eigi eftir að gera þær viðráðanlegri fyrir neytendur og þá skapist tækifæri fyrir fjárfestingar í grænum störfum í landinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.