Innlent

„Höldum þetta út inn í miðjan des og sjáum þessar tölur fara al­menni­lega niður“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Thor Aspelund er prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands og fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi.
Thor Aspelund er prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands og fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi. Almannavarnir

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir nauðsynlegt að halda út í  sóttvarnaaðgerðum vegna kórónuveirufaraldursins fram í miðjan desember svo ekki komi bakslag rétt fyrir jól.

Hann segir þróunina á faraldrinum í rétta átt, vonandi sé smitstuðullinn undir einum og haldist þannig enda sé ekki verið að gera miklar breytingar á samkomutakmörkunum næstu tvær vikurnar.

Thor fer fyrir teyminu við HÍ sem vinnur spálíkan um líklega þróun Covid-19 á Íslandi. Hann var í viðtali í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær.

„Það er tíu manna samkomubann og svo framvegis þannig að ef þetta heldur áfram í þessum farvegi þá eigum við eftir að sjá vonandi lágar tölur um mánaðamótin en þá er um að gera að halda þetta út svo það komi ekki bakslag,“ sagði Thor.

Aðspurður hvort ætla mætti að þjóðin gæti haldið gleðileg jól sagðist hann telja að hægt væri að gera ráð fyrir því „ef við höldum þessu góða gengi alveg inn í miðjan des. Ef við gleymum okkur ekki í byrjun des og höldum að allt sé komið í fína lag. Þá kemur nefnilega bakslagið akkúrat sirka 20. des. rétt fyrir jólin. Það er reynslan sem er að myndast núna.“

En hvernig eigum við að gera þetta næstu daga þrátt fyrir afléttingar? Hvernig eigum við að gera þetta til þess að við getum haldið gleðileg jól?

„Gefa krökkunum rými, leyfa þeim að njóta þess núna að fá að hittast aðeins. Höldum okkur til baka, verum aðeins hlédræg. Höldum þetta út inn í miðjan des og sjáum þessar tölur fara almennilega niður, núll, eitt, tvö smit á dag og þá getum við kannski farið að skoða eitthvað málin,“ sagði Thor.

Viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér fyrir neðan sem og frétt Stöðvar 2 um nýjar reglur um samkomutakmarkanir sem tóku gildi á miðnætti.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×