Enski boltinn

Áhorfendur í leikjum enska gætu snúið aftur í desember

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stuðningsmaður Liverpool með vel merkta andlitsgrímu.
Stuðningsmaður Liverpool með vel merkta andlitsgrímu. Getty/Peter Byrne

Áhorfendur hafa verið bannaðir á leikjum enska boltans í átta mánuði eða síðan að kórónuveirufaraldurinn tók yfir heiminn. Nú gætu þeir snúið aftur fyrir jól.

Breska ríkisstjórnin er nefnilega að skoða alvarlega möguleikana á því að leyfa áhorfendur á ný á íþróttaviðburðum í sumum hlutum landsins strax frá og með næsta mánuði.

Samkvæmt heimildarmönnum breska ríkisútvarpsins þá hefur Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, gefið þingmönnum það í skyn á bak við tjöldin að það væri persónulegt forgangsmál hjá honum að opna aftur áhorfendastæðin eins fljótt og auðið er.

Ráðuneyti menningar- og íþróttamála er að vinna að því þessa dagana að leyfa áhorfendur á þeim svæðum þar sem kórónuveirusmit eru ekki mörg. Áhorfendur gæti fengið grænt ljós á þeim stöðum fyrir jól.

Áður hafði íþróttasamböndum landsins verið tilkynnt það að engir áhorfendur yrði leyfðir í landinu fyrr en í apríl á næsta ári.

Ríkisstjórnin segist hafa haldið uppbyggilegar viðræður við forsvarsmenn fótboltans með þetta í huga en á tímamótafundi í gær var einnig rætt um önnur mál eins og fjárhagsstöðu félaga sem er mjög slæm hjá mörgum þeirra.

Engir áhorfendur hafa verið leyfðir á leikjum í enska boltanum síðan í mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×