Innlent

Klórar sér í kollinum yfir forgangsröðuninni

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Nemendur við Réttarholtsskóla dönsuðu við lagið Jerusalema á föstudaginn var. Í atriðinu var varpað ljósi á þau höft sem skólinn býr við.
Nemendur við Réttarholtsskóla dönsuðu við lagið Jerusalema á föstudaginn var. Í atriðinu var varpað ljósi á þau höft sem skólinn býr við. Vísir/Vilhelm

Aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla furðar sig á því að ekki hafi verið létt á sóttvarnaaðgerðum í grunnskólum á sama tíma og íþróttastarf barna var heimilað. Hann segir að ósamræmis gæti sem grafi undan trúverðugleika aðgerðanna.

Grímuskylda og fjöldatakmarkanir tóku gildi hjá fimmta bekk og upp úr í byrjun mánaðar og íþróttastarf barna hefur verið óheimilt frá 8. október. Nýverið var ákveðið að íþróttir barna yrðu heimilaðar á ný og í gær tilkynnti heilbrigðisráðherra að grímuskylda yrði afnumin hjá börnum í fimmta til sjöunda bekk.

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, segist telja að margar skólabyggingar í landinu séu líkt og margar heilbrigðisstofnanir, ekki vel ræstar og loftræstikerfin mögulega gömul og úrelt eða jafnvel engin.Stöð 2

Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóri Réttarholtsskóla, fagnar því að börn fái að stunda sínar íþróttir á ný en telur ósamræmis gæta. Um sé að ræða íþróttir með og án snertingar þar sem börn úr ýmsum hverfum komi saman, en þurfi hins vegar að virða tveggja metra reglu og grímuskyldu í skólanum.

„Ég held að þetta grafi hratt undan trúverðugleika aðgerðanna ef krakkar hér í skólanum eru öll hólfuð niður. Samkvæmt almannavörnum var beðið um að þau myndu ekki leika saman eftir skóla en síðan á íþróttaæfingum þá koma allir saman, í glímu, júdó eða karate þar sem menn eru í miklu návígi en það er í lagi að grunnskólastarfið sé allt hólfað niður með loftræstingu og grímum,“ segir Jón Pétur.

Útfæra þyrfti þessi atriði betur.

Sjö greindust smitaðir hér á landi í gær. Þriðja daginn í röð má telja fjölda smitaða á fingrum beggja handa.vísir/Vilhelm

„Það væri mögulega hægt að hólfa þetta eftir hverfum eða skólum en mín skoðun er sú að fullorðnir í skólanum ættu að bera grímu en krakkarnir, á þessum tímapunkti, að það mætti létta af grímuskyldu hjá krökkunum en passa vel upp á loftræstinguna og koma skólastarfinu í eðlilegra horf.“

Hann segir að laga þurfi forgangsröðunina.

„Ef íþróttirnar eru komnar í eðlilegt horf þá ættu skólarnir að vera það líka, því mér finnst í raun að það ætti að létta fyrst af skólunum og svo íþróttum.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.