Erlent

Bóluefni Moderna veitir 95 prósent vörn gegn kórónuveirunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Biotech firm Moderna in Norwood Massachusetts
EPA/CJ GUNTHER

Bóluefni sem bandaríska lyfjafyrirtækið Moderna hefur verið með í þróun veitir 95 prósent vörn gegn kórónuveirunni. Þetta sýna fyrstu niðurstöður úr rannsóknum Moderna, sem fyrirtækið tilkynnti um rétt í þessu.

Niðurstöðurnar eru birtar um viku eftir að lyfjafyrirtækið Pfizer tilkynnti um sambærilegar niðurstöður sínar. Bóluefni Pfizer sýndi 90 prósent vörn gegn veirunni, sem þótti fram úr björtustu vonum sérfræðinga.

Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir Moderna í tilkynningu að stefnt sé að því að sækja um leyfi fyrir bóluefninu á næstu vikum. Reynt verði að hafa 20 milljón skammta af efninu tilbúna til notkunar í Bandaríkjunum eins fljótt og auðið er og allt að milljarð skammta til notkunar um allan heim á næsta ári.

Efnið var prófað á um 30 þúsund manns í Bandaríkjunum. Helmingi voru gefnir tveir skammtar með fjögurra vikna millibili en hinn helmingurinn var sprautaður með lyfleysu.

Þá eru niðurstöður Moderna sagðar sýna að ellefu af þeim 30 þúsund sem tóku þátt í rannsókninni hafi veikst alvarlega af Covid-19, sjúkdómnum sem veiran veldur. Enginn þeirra hafði hins vegar fengið bóluefnisskammt. 

„Virknin í heildina hefur verið ótrúleg... þetta er frábær dagur,“ segir Tal Zaks, yfirmaður heilbrigðismála hjá Moderna, í samtali við BBC. 

Spurningum enn ósvarað

Enn er talsvert mörgum spurningum þó ósvarað varðandi virkni bóluefnisins, að því er fram kemur í frétt BBC. Þannig er ekki vitað hversu lengi ónæmi við veirunni varir og þá er heldur ekki vitað hvaða áhrif efnið hefur á eldra fólk. Zaks segir þó í samtali við BBC að ekkert bendi til þess að virkni efnisins dvíni með hækkandi aldri. 

Bóluefni Moderna er nokkuð svipað og bóluefni Pfizer en bæði eru svokölluð RNA-bóluefni. Slík bóluefni innihalda erfðaefni kórónuveirunnar sem myndar broddprótín (e. spike protein) sem hjálpar henni að komast inn í frumur.

Virðist geymast betur en Pfizer

Þá sýna niðurstöður rannsókna beggja fyrirtækja að efnin veiti svipaða vörn gegn veirunni; Pfizer um 90 prósent og Moderna 94,5 prósent. Rannsóknir á báðum efnum eru þó enn yfirstandandi og hlutfallið gæti breyst. 

Hins vegar virðist sem auðveldara verði að geyma Moderna-bóluefnið. Pfizer-bóluefnið þarf að geyma við allt að 80 stiga frost en Moderna-efnið helst stöðugt við -20 gráður í allt að sex mánuði. Þá segir í frétt BBC að hægt sé að geyma það í „hefðbundnum ísskáp“ í allt að mánuð.

Ísland hefur þegar tryggt sér aðgengi að bóluefni í gegnum Evrópusambandið. Framkvæmdastjórn sambandsins hefur samið við fjóra framleiðendur; Pfizer, AstraZeneca, Sanofi og Janssen. Þá gaf sambandið það út í síðustu viku að „árangursríkum“ viðræðum við Moderna um kaup á bóluefni væri lokið.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.