Erlent

Á von á jafn góðum fréttum af öðru bóluefni á næstu dögum

Birgir Olgeirsson skrifar
Anthony Fauci.
Anthony Fauci. Vísir/Getty

Anthony Fauci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, á von á að niðurstöður úr prófunum á kórónuveirubóluefni bandaríska framleiðandans Moderna verði svipaðar og hjá Pfizer.

Þetta hefur Financial Times eftir Fauci en hann segir að Moderna muni byrja að meta niðurstöður úr þriðja fasa prófana sinna á næstu sjö dögum.

Fauci segir að það muni koma honum á óvart ef niðurstöður Moderna verði ekki svipaðar og þær sem bóluefnaframleiðandinn Pfizer birti á mánudag. Pfizer sagði að rannsóknir hefðu sýnt fram á 90 prósenta virkni þeirra bóluefnis.

Pfizer framleiðir RNA-bóluefni en það gerir Moderna einnig. Fauci sagði að bóluefni þessara tveggja framleiðenda væri nánast eins, þess vegna myndi það koma á óvart ef niðurstöðurnar verða ekki svipaðar.

„Okkur var tjáð að þeir muni hefja sama mat á næstu dögum líkt og Pfizer gerði í síðustu viku,” er haft eftir Fauci.

Fauci leiðir sóttvarnastofnun Bandaríkjanna sem vinnur með Moderna að þróun bóluefnis.

Þar að auki er haft eftir honum að hann hafi ekki búist við jafn góðum niðurstöðum og Pfizer sýndi fram á.

Fái Pfizer leyfi til að setja bóluefni sitt á markað verður það fyrsta RNA-bóluefnið sem verður skráð. Fauci segir það ekki aðeins risa skref í baráttunni við kórónuveiruna, heldur einnig risa skref fyrir bóluefnaþróun í heild.

Þess má geta að Moderna er einn af sex bóluefnaframleiðendum sem Evrópusambandið hefur samið við. Það tryggir Íslandi aðgengi að Moderna-bóluefninu ef það fær leyfi. Evrópusambandið tilkynnti í dag að það hefði náð samningum við Pfizer um kaup á 200 milljónum skammta, og með möguleika á 100 milljónum skammta til viðbótar. Einnig hefurEvrópusambandið samið við Astrazenica, sem framleiðir bóluefni með Oxford háskólanum í Bretlandi. Búist er við niðurstöðum frá því fyrirtæki á næstu vikum.


Tengdar fréttir

Fólkið sem WHO vill að verði bólusett fyrst

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) birti í október ráðgefandi lista yfir þá hópa sem ættu að vera í forgangi við bólusetningu fyrir kórónuveirunni.

Aðgengi Íslands að bóluefni Pfizer tryggt

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins undirritaði í dag samning við lyfjafyrirtækið Pfizer um kaup á 200 milljónum skammta af bóluefni fyrirtækisins við Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×