Fótbolti

Elías Már skoraði öll mörkin í öruggum sigri Excelsi­or

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Elías Már heldur áfram að skora og skora.
Elías Már heldur áfram að skora og skora. Angelo Blankespoor/Getty Images

Elías Már Ómarsson gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu er lið hans Excelsior vann 3-0 sigur á TOP Oss í hollensku B-deildinni í kvöld. Hefur hann nú skorað 13 mörk í aðeins 11 leikjum til þessa á leiktíðinni.

Það tók Keflvíkinginn knáa aðeins tvær mínútur að þenja netmöskvana í kvöld. Var það eina mark fyrri hálfleiks en Elías Már bætti við öðru marki sínu og öðru marki Excelsior í upphafi síðari hálfleiks og staðan orðin 2-0 heimamönnum í vil.

Hann gulltryggði svo þrennu sína og sigur Excelsior á 88. mínútu leiksins.

Lokatölur 3-0 heimamönnum í vil og Excelsior komið upp í 8. sæti deildarinnar með 17 stig eftir 11 leiki. Alls fara liðin í 3. til 8. sæti í umspil um sæti í efstu deild á meðan efstu tvö liðin fara beint upp.

Ásamt því að skora 13 mörk í deildinni skoraði hinn 25 ára gamli framherji tvívegis í eina bikarleik Excelsior til þessa og er því með 15 mörk í aðeins 12 leikjum.

Hann hefur sagt að markmið sitt sé að spila í sterkari deild á komandi misserum og forvitnilegt að sjá hvort lið beri víurnar í hann er félagaskiptaglugginn opnar í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×