Enski boltinn

Keane kallaði Walker hálfvita

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kyle Walker fékk á sig vítaspyrnu í leik Manchester City og Liverpool í gær.
Kyle Walker fékk á sig vítaspyrnu í leik Manchester City og Liverpool í gær. getty/Matt McNulty

Roy Keane, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, er vanur að segja það sem honum býr í brjósti og hann breytti ekkert út af vananum þegar hann var sérfræðingur Sky Sports um leik Manchester City og Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Leikurinn endaði með 1-1 jafntefli. Mohamed Salah skoraði mark Liverpool úr vítaspyrnu sem Sadio Mané fékk eftir að Kyle Walker braut klaufalega á honum. Keane gagnrýndi enska landsliðsmanninn harðlega.

„Mané er á móti hálfvita. Fólk heldur að Kyle Walker sé að spila vel en ég er ekki á sama máli. Hann heldur áfram að gera mistök,“ sagði Keane.

„Þetta var heimskulegt og brjálaður varnarleikur. Síðan danglar hann fætinum út og veit að hann er að fá á sig víti. Ég hef fylgst með honum í gegnum árin og hann er alltaf líklegur til að gera svona bjánaleg mistök. Hann er þrítugur og heldur samt áfram að gera sig sekan um svona mistök. Hann lærir aldrei.“

Sem betur fer fyrir Walker kostuðu mistök hans City ekki sigurinn því Gabiel Jesus jafnaði á 31. mínútu. Skömmu fyrir hálfleik fékk City víti en Kevin De Bruyne skaut framhjá.

City er í 10. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tólf stig, sex stigum á eftir toppliði Leicester City. Strákarnir hans Peps Guardiola eiga þó leik til góða.


Tengdar fréttir

Stórmeistarajafntefli á Etihad

Manchester City og Liverpool gerðu 1-1 jafntefli er liðin mættust í stórleik umferðarinnar í enska boltanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×