Fótbolti

Arnór Ingvi ekki með gegn Ungverjum eftir allt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason í umspilsleiknum gegn Rúmeníu í síðasta mánuði.
Arnór Ingvi Traustason í umspilsleiknum gegn Rúmeníu í síðasta mánuði. vísir/vilhelm

Arnór Ingvi Traustason verður eftir allt ekki með íslenska landsliðinu í fótbolta í leiknum mikilvæga gegn Ungverjalandi á fimmtudaginn. Sæti á Evrópumótinu á næsta ári er undir.

Samherji Arnórs Ingva hjá Malmö, Anders Christiansen, greindist með kórónuveiruna eftir leik liðsins gegn Sirius í gær. Malmö vann leikinn, 4-0, og tryggði sér þar með sænska meistaratitilinn.

Hlutirnir hafa gerst hratt í dag. Fyrst var greint frá því að Arnór Ingvi væri kominn í sóttkví og svo að hann væri á leið til Augsburg í Þýskalandi þar sem íslenska liðið æfir fyrir leikinn gegn Ungverjalandi.

Nú er hins vegar ljóst að Arnór Ingvi missir af leiknum gegn Ungverjum. Er þetta gert „til að gæta fyllstu varúðar í sóttvörnum íslenska liðsins fyrir þennan mikilvæga leik,“ eins og það er orðað í tilkynningu frá KSÍ.

Ekki verður kallað á annan leikmann inn í íslenska hópinn í stað Arnórs Ingva. Eins og staðan er núna eru því 23 leikmenn í íslenska hópnum.

Arnór Ingvi var í byrjunarliði Íslands í 2-1 sigrinum á Rúmeníu í EM-umspilinu í síðasta mánuði.

Leikur Ungverjalands og Íslands verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 fimmtudaginn 12. nóvember klukkan 19.45 en upphitun hefst klukkan 18.45. Áskrift er hægt að kaupa hér en einnig verður í boði að kaupa stakan viðburð á myndlyklum Vodafone og Símans á kr. 990, sem og í vefsjónvarpi Stöðvar 2.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.