Erlent

Starfs­manna­­stjóri Hvíta hússins með kórónu­veiruna

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins.
Mark Meadows, starfsmannastjóri Hvíta hússins. Sarah Silbiger/Getty

Starfsmannastjóri Hvíta hússins, Mark Meadows, hefur greinst með kórónuveiruna sem veldur Covid-19. Frá þessu greinir Bloomberg-fréttastofan og vísar til heimildamanna sinna sem þekkja til málsins.

Samkvæmt Bloomberg greindist Meadows með veiruna síðastliðinn miðvikudag, daginn eftir að Bandaríkjamenn gengu að kjörborðinu. Meadows er sagður hafa upplýst sinn innsta ráðgjafahring um greininguna samdægurs.

Að minnsta kosti fjórir aðrir starfsmenn Hvíta hússins eru þá sagðir hafa sýkst af veirunni. Þeirra á meðal er Cassidy Hutchinson, en hún er einn nánasti ráðgjafi Meadows. Þá hefur Nick Trainer, ráðgjafi úr herbúðum framboðs Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, einnig greinst með veiruna.

Hvorki Meadows né talsmenn Hvíta hússins hafa brugðist við skilaboðum Bloomberg-fréttastofunnar þegar óskað var eftir viðbrögðum af einhverjum toga. Þá hafa Trainer og talsmenn framboðs forsetans ekki heldur viljað tjá sig um málið.

Starfsmannastjórinn sjaldan með grímu

Meadows hefur síðustu daga tekið þátt í tilraunum framboðs forsetans til þess að kæra framkvæmd kosninganna í þó nokkrum ríkjum þar sem Joe Biden er nú með forskot á forsetann, að því er Bloomberg hefur eftir heimildarmanni sínum.

Þá segir að hluti starfsmannahóps Hvíta hússins hafi vitað af því að Meadows greindist með veiruna, en hafi verið skipað að halda því leyndu.

Síðastliðinn þriðjudag var Meadows staddur í höfuðstöðvum framboðsins án grímu og hið sama var uppi á teningnum á miðvikudag, daginn sem hann greindist. Samkvæmt Bloomberg sést Meadows sjaldan með grímu, líkt og forsetinn sjálfur og fjöldi annarra úr starfsliði hans.

Donald Trump greindist í síðasta mánuði sjálfur með kórónuveiruna, ásamt tugum öðrum sem tengjast honum. Þeirra á meðal eru Melania Trump forsetafrú og Barron, yngsti sonur þeirra.

Um 9,7 miljónir hafa nú greinst með kórónuveiruna í Bandaríkjunum og yfir 236.000 látið lífið af völdum Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×