Erlent

Biden með fingurgómana á pálmanum: hvað gerist næst?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Biden hefur góða ástæðu til að vera sigurviss.
Biden hefur góða ástæðu til að vera sigurviss. AP/Paul Sancya

Flestir virðast sammála um að það sé aðeins tímaspursmál þar til einhver stóru miðlanna í Bandaríkjunum ríður á vaðið og lýsir Biden sigurvegara í einhverju þeirra ríkja þar sem enn er talið og þar með kjörinn forseta.

Ýmsar vangaveltur eru uppi um framhaldið; mun Trump játa ósigur? Mun hann hringja í Biden? Miðað við það hvernig Trump hefur brugðist við þróun mála hafa margir sínar efasemdir. Biden mun hins vegar ræða við Mitch McConnell, leiðtoga repúblikana í öldungadeildinni, í dag og ávarpa þjóðina í kvöld.

Biden hefur nú forskot í Georgíu, Nevada og Pennsylvaníu og hefur verið lýstur sigurvegari í Arizona af AP og Fox News. Samkvæmt þeirra útreikningum dugir Biden eitt ríki í viðbót til að tryggja sér 270 kjörmenn en Trump má alls ekki við því að tapa Georgíu og Pennsylvaníu.

Í Georgíu hefur Biden nú 1.564 atkvæða forskot á Trump en um 4.000 atkvæði eru ótalin. Í Pennsylvaníu er forskot Biden 12.390 atkvæði en hann hefur verið að sópa til sín miklum meirihluta þeirra atkvæða sem nú er verið að telja. Þá hefur hann bætt við sig í Nevada, þar sem forskotið stendur nú í 20.542 atkvæðum.

Trump hefur verið að vinna á í Arizona. Það er þó alls óvíst að það dugi til, þar sem hann hefur verið að fá 51% atkvæða í dag en þarf 58 til 60% atkvæða til að taka fram úr Biden.

Næstu tímar munu leiða í ljós hvort gerist næst; að AP eða Fox ríða á vaðið og lýsa Biden sigurvegara í einu ríki til viðbótar og þar með næsta forseta, eða hvort það gerist á undan að New York Times, Washington Post og sjónvarpsstöðvarnar lýsi Biden sigurvegara í Arizona og hann fari í 264 kjörmenn hjá þeim. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×