Erlent

ISIS lýsir yfir ábyrgð á árásinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Fjórir eru látnir og 22 særðir eftir árásina í gær.
Fjórir eru látnir og 22 særðir eftir árásina í gær. EPA/FLORIAN WIESER

Íslamska ríkið lýsti í kvöld yfir ábyrgð á skotárásinni í Vín í gærkvöldi. Hryðjuverkasamtökin birtu mynd af árásarmanninum, Kujtim Fejzulai, undir dulnefninu Abu Dujana al-Albani og segja hann hafa verið „hermann kalífadæmisins“. Það er þó óljóst hvort hryðjuverkasamtökin hafi komið að árásinni með nokkrum hætti.

Minnst fjórir dóu í árásinni og 22 særðust. Þar af einhverjir sem eru í lífshættu. Mikil óreiða skapaðist í Vín og taldi lögreglan lengi að um minnst tvo árásarmenn væri að ræða. Það hefur enn ekki verið útilokað og er lögreglan að fara yfir myndir og myndbönd.

Fejzulai birti í gær myndband á Instagram þar sem hann lýsti yfir hollustu við leiðtoga Íslamska ríkisins og er myndin sem ISIS birti tekin úr því myndbandi. Það myndband var svo einnig endurbirt af ISIS í kvöld í gegnum Amaq-fréttaveitu þeirra.

Fejzulai var tvítugur og bæði ríkisborgari í Austurríki og Norður-Makedóníu. Honum var sleppt úr fangelsi í desember, eftir að hann hafði verið dæmdur fyrir að reyna að fara til Sýrlands og ganga til liðs við ISIS.

Samkvæmt frétt BBC hefur lögreglan í Austurríki handtekið minnst fjórtán manns sem sagðir eru tengjast Fejzulai. Þar að auki hafa tveir svissneskir menn verið handteknir í bæ nærri Zurich.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×